Ísafjarðarbær: ánægjuleg rekstrarniðurstaða í ársreikningi

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, sem kjörin var 1. maí 2022. Mynd: isafjordur.is

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar afgreiddi ársreikninga sveitarfélagsins fyrir 2023 í síðustu viku með níu samhljóða atkvæðum.

Dagný Finnbjörnsdóttir lét bóka f.h. Sjálfstæðisflokks:
„Rekstrarniðurstaða Ísafjarðarbæjar er ánægjuleg og nú eru mikil tækifæri framundan. Þrátt fyrir þetta þarf að bera ársreikninginn saman við fjárhagsáætlun.
Gert var ráð fyrir að A hluti yrði með 34 milljón króna afgangi og A og B hluti með 272 milljón króna afgangi. Þrátt fyrir að skatttekjur hafi orðið 130 milljón krónum meiri en gert var ráð fyrir er rekstrarniðurstaðan 150 milljón krónum lægri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Mikilvægt er að nýta auknar tekjur til að greiða niður skuldir, lækka álögur á íbúa eða í fjárfestingar en ekki að blása út reksturinn.“

Rekstur að styrkjast

Gylfi Ólafsson lagði fram bókun f.h. Í-listans sem er með hreinan meirihluta í bæjarstjórn:
„Ársreikningur Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2023 hefur nú verið kynntur og liggur fyrir bæjarstjórn til samþykktar.
Rekstur Ísafjarðarbæjar er að styrkjast þrátt fyrir áskoranir í rekstri sveitarfélaga og þar vegur þyngst há verðbólga, auk þess sem viðbótarframlag til Brú lífeyrissjóðs hafði neikvæð áhrif á rekstrarniðurstöðuna. Afkoma Ísafjarðarbæjar árið 2023 er jákvæð og skilar nú afgangi sem nemur 119 milljónum króna en reksturinn var neikvæður um 109,6 m.kr árið 2022.
Það eru mörg jákvæð teikn á lofti. Skuldahlutfallið er að lækka, það var árið 2022 138,8% en er 133,5 % árið 2023. Skuldahlutfallið hjá A hluta er 121,8% en var 124,7% árið 2022. Skuldaviðmið A og B hluta er 86,5% og 81,1% fyrir A hluta. Veltufé frá rekstri er að aukast sem um munar á milli ára sem styrkir getu sveitarfélagsins til að standa undir framkvæmdum og öðrum skuldbindingum. Handbært fé hækkaði um 305 m.kr. frá fyrra ári og var handbært fé í árslok 2023 kr. 563 m.kr.
Á síðasta ári var mikið framkvæmt en fjárfest var fyrir rúmar 743 m.kr. í A- og B-hluta á árinu 2023. Umsvifamestu fjárfestingarnar voru tveir nýir gervigrasvellir á Torfnesi sem munu umbylta allri aðstöðu til knattspyrnuiðkunar í sveitarfélaginu, hafnarframkvæmdir og fjárfestingar í fráveitu og vatnsveitu.
Það er ljóst að rekstur sveitarfélagsins verður áfram krefjandi en ársreikningur ársins 2023 er þó til marks um að vel hafi tekist þrátt fyrir óhagstætt efnahagsumhverfi.“

DEILA