Halla Hrund stenst prófin tvö

Fyrir nokkrum misserum, þegar ég var enn forstjóri í opinberri stofnun, fór ég suður á fund Félags forstöðumanna ríkisstofnana (FFR). Í aðdraganda fundarins datt mér í hug að stofna mjög sértækan klúbb forstjóra í kringum fertugt, þar sem ræða skildi um snertifleti smábarnauppeldis og líf forstjórans. Meðal umræðuefna skyldu vera til dæmis hvernig starfsdagar á leikskólum færu saman við starfsdaga æðstu stjórnenda, hvaða verkfæri stjórnsýslulaga eða nútímalegrar mannauðsstjórnunar væru notadrýgst við uppeldi þrákelkinna leikskólabarna og hvernig best er að ná gubbublettum úr stökum jökkum og buxnadrögtum.

Ég bauð því yngstu meðlimum FFR með út að borða. Það var táknrænt að einn tilvonandi meðlimur komst ekki með okkur vegna þess að eitt barna hans var með ælupest. Við vorum því bara þrjú á stofnfundinum; ég, Kría (Kristín Lena) forstjóri Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra og Halla Hrund orkumálastjóri. Þarna kynntist ég Höllu vel og við höfum haldið góðu sambandi síðan.

Fyrir mér er augljóst að Halla Hrund stenst með glans þau tvö próf sem ég held að almenningur leggi ósjálfrátt fyrir forsetaframbjóðendur.

Prófin tvö

Það fyrra er alþjóðlegt, bjórprófið. Það hljómar svo: með hvaða frambjóðanda vill maður helst drekka bjór? Og ég get vottað að það er barasta mjög gaman að drekka bjór eða eitthvað annað með Höllu Hrund, því hún er hress og skemmtileg, segir sjálf brandara og hlær að bröndurum sem aðrir segja.

Hitt prófið er Kjarvalsprófið sem ég kalla, það er hversu auðvelt á maður að ímynda sér frambjóðendur ábúðarfulla með Kjarvalsmálverk í bakgrunni að tala um stóráföll, samfélagsleg gildi eða stöðu Íslands við áramót. Og þetta próf stenst Halla Hrund með glans.

Um aðra mannkosti Höllu hefur verið skrifað í löngu máli á öðrum vettvangi, en áhersla hennar á samskipti við önnur lönd er eitthvað sem höfðar sérstaklega til mín. Þar tel ég að til mikils sé að vinna og hún mjög vel hæf til að skapa og styrkja tengsl í vísindum, menningu og viðskiptum.

Vestfirðir voru fyrsta alvöru stoppið hennar í kosningabaráttunni. Hún kom í Fossavatnsgönguna í apríl og hélt opna fundi út um allt. Dagana eftir heimsóknina hingað vestur fór svo frægðarsól Höllu að rísa fyrir alvöru.

Það kemur þeim sem þekkja Höllu ekki á óvart. 

Gylfi Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða

DEILA