Félagsheimilið Þingeyri – þörf á viðgerðum

Félagsheimilið á Þingeyri. Mynd: Ísafjarðarbær.

Lagður hefur verið fram ársreikningur 2023 fyrir Félagsheimilið á Þingeyri og skýrsla um starfsemi og ástand hússins.

Tekjur síðasta árs voru 796 þús kr. og útgjöld 569 þúsund krónur. Inneign var í byrjun árs 811 þúsund kr. og jókst hún í 1.038 þúsund kr. í lok ársins.

Í fyrra var tekin saman greinargerð um ástand, viðhald og nauðsynlegar endurbætur á húsnæði Félagsheimilisins á Þingeyri og komið til bæjarstjóra. Þar er rakið hvaða endurbætur er orðið verulega nauðsynlegt að ráðast í og hefur verið í mörg ár. Þegar eldhúsið var tekið í gegn var planið að a.m.k. gólf í sal og gluggar væru næst á dagskrá. Og þannig er það enn segir í ársskýrslunni.

Engar meiriháttar framkvæmdir voru í fyrra, en aukavatnshitakútur fyrir eldhús var tengdur í maí þannig að nú er nægt heitt vatn í uppvask en það var löngu orðið tímabært að laga það.

Á Dýrafjarðardögun í fyrra var haldinn dansleikur og rann aðgangseyrir til endurbóta á gólfi í salnum auk frjálsra framlaga. Um 500 þús kr. safnaðist í frjálsum framlögum “spýtum” og svo til annað eins í aðgangseyri. Þetta bíður allt á bók og mun renna óskipt í nýtt gólf þegar að því kemur.

Eldvarnareftirlitið hefur lagt fram eindregna kröfu um að brunavarnarkerfi verði sett upp í húsinu. Búið er að panta slíkt kerfi frá Bretlandi. Það bíður uppsetningar en sá kostnaður væri þá í höndum sveitarfélagsins.

Af öðrum verkefnum er að klára þarf að koma upp túðu með viftu sem tekin var niður þegar þakið á senuhluta hússins var endurnýjað, gera þarf við leka í hornum þar sem salur og sena tengjast og þakrennur á húsinu eru farnar að leka.

DEILA