Vesturbyggð: heimila beina úthlutun lóða án auglýsingar

Patreksfjörður um sjómannadagshelgina síðustu.. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarstjórn hefur samþykkt samhljóða að bæta við ákvæði um reglur um úthlutun lóða sem heimila í sérstökum tilvikum að úthluta lóðum til lögaðila án auglýsingar.

Meginreglan er að auglýsa skuli lóðir áður en þeim er úthlutað í fyrsta sinn og komi til endurúthlutunar skuli þær auglýstar að nýju.

Bæjarstjórnin samþykkti að bæta við eftirfarandi ákvæði:

„Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er bæjarstjórn heimilt í sérstökum tilvikum vegna ríkra hagsmuna sveitarfélagsins að úthluta lóðum án auglýsingar til lögaðila vegna stærri uppbyggingarverkefna, enda liggi fyrir samningur milli sveitarfélagsins og viðkomandi aðila, þar sem kveðið er á um nýtingu og afmörkun lóðar, byggingahraða og tryggingu fyrir greiðslu gatnagerðargjalda. Einnig sé heimilt í þeim tilvikum að tryggja þurfi sveitarfélagi eða öðrum opinberum aðilum byggingarrétt að úthluta lóðum án auglýsingar.“

Bæjarstjóra var falið að birta breytinguna á heimasíðu bæjarfélagsins.

DEILA