Tugmilljóna króna tap: skemmtiferðaskipin sneru við

Poesia í Sundahöfn. Mynd: Sturla Páll Sturluson.

Ísafjarðarhöfn og ferðaþjónustuaðilar urðu fyrir tugmilljóna króna tapi í gær þegar tvö skemmtiferðaskip urðu frá að hverfa vegna veðurs. Skipin Poesia og Balmoral áttu bókaðan tíma í gær í Ísafjarðarhöfn með samtals um 3.200 farþega. Annað skipið lagðist upp að kanti í Sundahöfn en sleppti endum strax og sigldi út og hitt skipið sneri við úti í firðinum að sögn Hilmars Lyngmó hafnarstjóra. Hann sagði vind hafa verið mikinn og hviðótt í Sundunum i þessari átt sem var. Fór annað skipið til Akureyrar og hitt til Reykjavíkur.

Hilmar sagði lítið við þessu að gera. Á Íslandi væri allra veðra von. Hann taldi að tekjutap Ísafjarðarhafnar væri ekki undir 10 milljónum króna og við það bætist svo tekjutap ferðaþjónustuaðila sem ætluðu að þjónusta ferðamennina en ekkert varð af.

DEILA