Þingeyri: þarf að hreinsa fráveituskurð ofan byggðarinnar

Frá Þingeyri. Mynd:Kristinn H. Gunnarsson.

Íbúasamtökin Átak á Þingeyri hafa sent bæjaryfirvöldum á Ísafirði lista yfir verkefni sem vinna þarf í sumar.

Meðal verkefna er að huga a fráveituskurði fyrir ofan byggðina. Vonast var til að skurðurinn yrði hreinsaður í fyrra, en varð ekki og segja íbúasamtökin að hann þyrfti að hreinsa í ár, því vatnsflaumurinn niður í gegnum byggðina er allan veturinn og veldur bæði skemmdum og mikilli hálku þar sem rennur niður úr brekkunum yfir gangstéttir og vegi.

Samtökin myndi vilja fá aðstoð við lagfæringi á Olíuportinu. “ þar myndum við vilja fá aðstoð við að jafna lóðina og fá málningu til að bera á veggina, hverfisráðið er tilbúið sjálft til að mála. Viljum gjarnan fá 4 bekki til að setja í portið.“

Þá vekja íbúasamtökin athygli á Kirkjugarðsveggnum, sem þyrfti að fá aðhlynningu, „bæði þarf að lappa aðeins upp á múrinn og svo þarf orðið málningu á vegginn.“

Blómabeð við hjúkrunarheimilið Tjörn eru í misjöfnu ástandi og farið er fram á það við Ísafjarðabæ að
hann taki að sér umhirðu allra beða við Tjörn. Þar séu sum beðin við Tjörn mjög fín á meðan hin eru í algjörri óhirðu.

Þá mætti svæðið við sundlaugina alveg fá smá lit með blómakerjum, blómakerin 5 sem hafa verið sett upp á vorin eru mjög fín og mættu alveg vera fleiri segir í erindi Átaks íbúasamtaka til bæjarráðs.

DEILA