Sundahöfn: Hollendingarnir komnir

Hein siglir inn Sundin.

Hollenska dýpkunarskipið Hein er komið til Ísafjarðar og mun hefja dýpkun í dag eða á morgun. Vegagerðin og Ísafjarðarhafnir ákváðu í febrúar að semja við hollenska fyrirtækið Van Der Kamp um dýpkun við Sundabakka í vor. Framkvæmdum átti fyrir löngu að vera lokið en vegna þess að dýpkunarskip Björgunar var sífellt kallað úr verkinu til dýpkunar í Landeyjarhöfn drógust framkvæmdir og leiddi það til þess að Ísafjarðarhafnir urðu af um 150 m.kr. tekjum á síðastliðnu sumri.

Hilmar Lyngmó segir að kostnaðurinn við þennan samning fyrir Ísafjarðarhöfn sé um 20 m.kr. meiri en ætla mætti samkvæmt samningi við Björgun ehf en á móti þeim kostnaði komi að ekki verður af fyrirsjáanlegu tekjutapi hafnarinnar um 150 m.kr. eins og á síðasta ári vegna þess að viðlegukanturinn var ekki tilbúinn.

Áætlað er að framkvæmdir taki um 10 daga og hefur hollenska skipið þennan mánuð til þess að vinna verkið. Fjarlægja þarf um 50 þúsund rúmmetra í Sundahöfn og svipað magn úr rennunni í Sundunum. Dæla á efninu inn fyrir fyrirtöðugarðinn við Norðurtangann.

Hein lagst að bryggju í Sundahöfn.

Myndir: Heimir Tryggvason.

DEILA