Slysaslepping Arctic Fish: frekari rannsókn gerð

Frá laxeldi í Patreksfirði.

Embætti Ríkissaksóknara hefur með ákvörðun dags 17. apríl 2024 fellt úr gildi ákvörðun lögreglustjórans á Vestfjörðum frá 19. desember 2023 um að hætta rannsókn á slysasleppingu úr kví Arctic Fish í Kvígindisdal í ágúst 2023 og hefur lagt fyrir lögreglustjórann að fullrannsaka málið og taka að því loknu ákvörðun um saksókn eða hvort látið verði við svo búið standa. Dröfn Kærnested saksóknari tók ákvörðunina.

Einn kærenda var landssamband veiðifélaga og sagði framkvæmdastjóri þess Gunnar Örn Petersen í viðtali við Stöð 2 þann 30. desember 2023 að vanhæfi lögreglustjórans á Vestfjörðum í þessu máli væri algjört. „Af ákvörðuninni að dæma er erfitt að sjá hvort er meira ráðandi að lögreglustjórinn sé almennt vanhæfur til að fjalla um svona mál vegna skorts á þekkingu á lögum og lögskýringum eða hvort hann sé sérstaklega vanhæfur í þessu máli vegna aðstæðna og hvort tveggja virðist eiga við þegar maður les ákvörðunina,“

Ekki er vikið að þessari vanhæfiskröfu í ákvörðun ríkissaksóknara, en henni er augljóslega hafnað þar sem lagt er fyrir lögreglustjórann á Vestfjörðum að fullrannsaka málið og taka svo ákvöðrun um framhaldið.

Matvælastofnun kærði niðurfellingu lögreglustjórans til Ríkissaksóknara svo og 27 aðrir aðilar. Kærður í málinu er Stein Ove Tveiten stjórnarformaður og forstjóri Arctic Sea Farm.

Ætlað brot er gegn 22. grein laga um fiskeldi. Þar segir að það varði stjórnarmenn og framkvæmdastjóra rekstrarleyfishafa  sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, ef sakir eru miklar:
    a. ef eldisfiskur sleppur úr fiskeldisstöð þar sem umbúnaði við fiskeldið hefur verið áfátt vegna athafna eða athafnaleysis þeirra sem framið hefur verið af ásetningi eða gáleysi.

Í upphaflegri beiðni Matvælastofnunar til lögreglu var farið fram á að taka skýrslur af starfsmönnum og og afla frekari gagna svo unnt væri að taka ákvörðun um hvort sækja skyldi forstöðumenn fyrirtækisins til saka. Fram kemur hjá Mast að verklagsreglur um innra eftirlit hafi verið settar en aðbúnaði kvíarinnar hafi verið áfátt og að verklagsreglur hafi verið brotnar.

Í rökstuðningi lögreglustjórans á Vestfjörðum fyrir niðurfellingu málsins segir að gögn málsins beri ekki það með sér að sakborningurinn verði gerður ábyrgður fyrir ástæðum þess að gat myndaðist á kvínni. Skýringin sé líklega aðgæsluleysi áhafnar skipsins við slátrun. Og varðandi meint brot á ákvæði um ljósastýringu þá varði það sektum en ekki refsingu skv. umræddri 22. grein laga um fiskeldi.

Saksóknarinn í málinu, Dröfn Kærnested segir að framkvæmdastjóri og eftir atvikum stjórnarmenn beri ábyrgð á því að innra eftirliti sé sinnt og verklagsreglum fylgt. Óumdeild sé að fyrirtækið hafi sett sér verklagsreglur um innra eftirlit. Hins vegar liggi ekkert fyrir um að kærði eða aðrir sem bera refsiábyrgð samkvæmt 22. grein laganna hafi aðhafst til að tryggja að unnið væri eftir verklagsreglum. Er það því niðurstaðan að fullrannsaka beri málið.

DEILA