Skipulagsstofnun : ásætuvarnir í Arnarfirði skulu í umhverfismat – aðeins Vesturbyggð vildi þá leið

Skipulagsstofnun ákvað 3. apríl að fyrirhuguð framkvæmd Arctic Fish um að taka upp ásætuvarnir á kvíum í Arnarfirði sé líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því framkvæmdin háð mati á umhverfisáhrifum.

Fyrirtækið áformar að taka upp ásætuvarnir sem innihalda Tralopyril og Zinc Pyrithione á nætur eldiskvía innan þriggja eldissvæða fyrirtækisins í Arnarfirði í stað þess að bregðast við ásætum með reglulegum háþrýstiþvotti á nótum. Um er að ræða eldissvæðin Lækjarbót og Hvestudal auk eldissvæðisins í Trostansfirði.

Í greinargerð Skipulagsstofnunar segir að nótaþvottur með háþrýstingi hafi áhrif á velferð fiska, auk þess að valda sliti á eldisbúnaði, en háþrýstiþvottur ásæta skapar slæmar aðstæður fyrir eldisfisk og því mikilvægt að lágmarka þvott eins og hægt er eða útiloka þvottinn alfarið.

Eldisnætur verða húðaðar með ásætuvörn og verður magn ásætuvarna fyrir þau þrjú eldissvæði sem hér eru til umfjöllunar tæplega 52.000 lítrar af málningu ár hvert, þar af verður útskolun í heildina um 90 gr. á dag að jafnaði, en margfalt meiri fyrstu 14 daga útsetningar. Af þeim þremur eldissvæðum sem hér eru til umfjöllunar, starfrækir ASF eitt eldissvæði í einu og því verður notkunin um 17.000 lítrar af málningu fyrir hvert 8-12 mánaða tímabil. Rannsóknir á útskolun Zinc Pyrithione liggja ekki fyrir að svo stöddu.

Komi í ljós að zink sem safnast upp í botnseti fari yfir viðmiðunarmörk mun ASF grípa til mótvægisaðgerða. Þá verður ýmist hvíldartími lengdur, kvíastæði færð innan eldissvæðis, útsettum seiðum fækkað á eldissvæði með færri kvíum og dregið þannig úr fjölda kvía með ásætuvörn eða hætt að nota vörnina.

Einn af átta umsagnaraðilum vildi umhverfismat

Skipulagsstofnun er upp á lagt að lögum að leggja mat á umsókn af þessu tagi og taka ákvörðun um það hvort gera þurfi sérstakt umhverfismat, en það þýðir að málið tefst verulega ef á annað borð leyf fæst fyrir breytingunni. Sumarið 2022 hugðist Arctic Fish taka upp koparásætuvarnir en hætti við eftir að Skipulagsstofnun ákvað að þau áform þyrftu að fara í umhverfismat. Nú var sótt um að nýju en með öðrum efnum.

Skipulagsstofnun sendi umsóknina til átta aðila til umsagnar. Af þeim var aðeins einn sem vildi að framkvæmdin færi í sérstakt umhverfismat. Það var sveitarfélagið Vesturbyggð.

Að mati skipulags- og umhverfisráðs Vesturbyggðar liggur ekki fyrir í fyrirliggjandi gögnum hvort notkun ásætuvarnanna, geti haft í för með sér óafturkræf áhrif á náttúru í Arnarfirði og telur ráðið „því eðlilegt að framkvæmdin fari í umhverfismat vegna þeirrar óvissu sem er um langtíma áhrif þeirra efna sem nota á sem ásætuvarnir á lífríki fjarðarins sem og mögulegra sammögnunaráhrifa vegna fjölda eldissvæða í Arnarfirði.“ Framkvæmdin er ekki leyfisskyld af hálfu Vesturbyggðar.

Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða telur ekki þörf á sérstöku mati á umhverfisáhrifum. Sama segir Matvælastofnun í sinni umsögn. Jafnframt telur Mast að „notkun ásætuvarna skili bættum og öruggari umhverfisaðstæðum til eldis þegar kemur að dýraheilbrigði og velferð. Jafnframt telur stofnunin að þegar notast er við ásætuvarnir verði álag á nótina minna sem dregur úr líkum á mögulegu stroki.“

Umhverfisstofnun telur áhrif ofangreindrar framkvæmdar liggja ljós fyrir og að ferli umhverfismats muni í þessu tilfelli ekki varpa skýrari mynd á áhrif notkunar ásætuvarna á umhverfið.

Fiskistofa tekur ekki afstöðu til þess hvort rétt sé að fram fari umhverfismat.

Hvort fullt umhverfismat sé nauðsynlegt hefur Náttúrufræðistofnun ekki forsendur til að meta en segir sannarlega vera þörf á frekari rannsóknum. Hafrannsóknarstofnun segir að umhverfismat hafi þegar farið fram vegna sjókvíaeldisins og óljóst hverju umhverfismat á umræddum breytingum myndu skila í heildarmyndina ef það væri þá mögulegt. Ómögulegt sé að segja til um hvort að þessi breyting feli í sér minnkuð eða aukin áhrif á umhverfið.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar, telur að nægjanlega sé gert grein fyrir framkvæmdinni í framlögðum gögnum framkvæmdaaðila og telur að framkvæmdin kalli ekki á umhverfismat.

Að fengnum þessum umsögnum var það niðurstaða Skipulagsstofnunar að fyrirhuguð framkvæmd væri líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því framkvæmdin háð mati á
umhverfisáhrifum.

DEILA