SFS: Fjárfesting í fiskeldi aldrei meiri

Eldiskvíar Háafells í Ísafjarðardjúpi.

Fram kemur í fréttabréfi Samtaka fyrirtækja í fiskeldi, SFS, að allt bendi til þess að fjárfesting í fiskeldi á árinu 2023 hafi verið sú mesta í sögunni. Nam fjárfestingin 13,1 milljarði króna á síðasta ári og varð 2 milljörðum króna hærri en árið 2022, þegar hún var 11,1 milljarður króna. Hafa fjögur síðustu ár verið metár í fjárfestingu með samtals um 40 milljarða króna fjárfestingu.

Segir í frétabréfinu að aukningin í framleiðslu undanfarinna ára hafi fyrst og fremst verið drifin áfram af laxi úr sjókvíaeldi á Vestfjörðum og á Austurlandi. Framleiðsla á landi hefur verið töluvert minni, en SFS segir horfur vera á verulegri aukningu í þeim efnum næsta áratuginn enda hafa miklar fjárfestingar farið til uppbyggingar landeldisstöðva sem áform eru um á Reykjanesi, Ölfusi og Vestmannaeyjum. 

útflutningsverðmæti 16 milljarðar króna

Útflutningsverðmæti eldisafurða nam rúmlega 16 milljörðum króna nú á fyrsta ársfjórðungi 2024 og hefur aldrei verið meira í upphafi árs. Það er um 5% aukning á milli ára á föstu gengi. Hlutdeild eldisafurða í verðmæti vörútflutnings jókst töluvert á milli ára, eða úr 6,5% í 7,2%. 

„Miðað við ofangreinda þróun er ekki að undra að stjórnvöld hafi miklar væntingar um framtíðaruppbyggingu í fiskeldi hér á landi. Það mátti glögglega sjá í fjármálaáætlun stjórnvalda fyrir árin 2025-2029 sem nýr fjármála- og efnahagsráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, kynnti nú í vikunni. Auk fiskeldis voru hugverkaiðnaður, tæknitengd þjónusta og skapandi greinar nefndar sem helstu vaxtabroddar útflutnings til framtíðar. Þegar öllu er á botninn hvolft má vera ljóst að vöxtur í fiskeldi er þjóðinni til heilla, enda hvílir efnahagsleg hagsæld Íslendinga, hér eftir sem hingað til, á öflugum og fjölbreyttum útflutningsgreinum.“

 

Mynd úr fréttabréfi SFS.

DEILA