Sandeyri: fiskur í kvíar fyrir mánaðamót

Arctic Fish hefur fengið byggingarleyfi frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fyrir eldiskvíar við Sandeyri í Ísafjarðardjúpi. Þetta staðfesti Daníel Jakobsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar í samtali við Bæjarins besta. Þar með eru öll leyfi komin fyrir útsetningu eldislax í kvíarnar og fyrir uppsetningu kvínna og segir Daníel að fiskur verði kominn í þær fyrir mánaðamót. Hann segir þetta mjög ánægjulegt. Reyndar er ekki nýtt að áformað sé kvíaeldi við Sandeyri , Daníel minnir á að árið 2012 hafi Arctic Fish fengið leyfi fyrir 200 tonna eldi á þessum stað.

Daníel Jakobsson.

Gunnar Hauksson, landeigandi á Sandeyri hefur kært nýútgefið leyfi til Arctic Fish í Ísafjarðardjúpi til úrskurðarnefndar um umhverfis- og upplýsingamál og krefst hann þess að leyfið verði gert ógilt. Jafnframt krefst hann þess að nefndin stöðvi þegar í stað framkvæmdir við það sem leyfið tekur til. Mun nefndin úrskurða um stöðvunarkröfuna innan skamms en um aðalkröfuna síðar.

Kærandinn segir í rökstuðningi sínum fyrir kröfunni að jörðin Sandeyri muni verða fyrir umtalsverðum og óafturkræfum óhrifum af þeirri starfsemi sem rekstrarleyfið tekur til. Ennfremur segir að nánd landareignar kæranda við eldissvæðin og bein sjónlína þeirra frá eign kæranda og tilheyrandi sjónrænum áhrifum, geri það að verkum að kærandi verði fyrir áhrifum af sjókvíaeldinu á öllum þremur svæðunum umfram aðra, þ.e. ekki bara a Sandeyri heldur líka við Kirkjusund og Arnarnes. Þá segir ennfremur að aðeins sé aðgengt að jörðinni Sandeyri með báti en ljóst verði að ómögulegt verði fyrir kæranda að komast að húsi sínu á
eignajörðinni. Því verði jörð hans eyðilögð ef af leyfinu verður og muni honum ekki vera kleift að sinna viðhaldi húss síns á jörðinni sem er friðað. Þá hefur kærandi stundað veiði innan netlaga jarðar sinnar svo sem honum er heimilt lögum samkvæmt en það verði ekki mögulegt ef starfsemi sem leyfin kveða á um hefst.

Daníel Jakobsson sagði að eigandi Sandeyrar hafi ekki áður gert athugasemd við áform um fiskeldi við Sandeyri og taldist honum til að hann hefði síðan 2015 haft sjö sinnum tækifæri til þess.

DEILA