Samfylkingin: krafa um framfarir í orku- og samgöngumálum 

Krafa um árangur í atvinnu- og samgöngumálum er niðurstaða Samfylkingarinnar eftir víðtækt samráð og vinnufundi með sérfræðingum að sögn Kristrúnar Frostadóttur, formanns flokksins. Þetta kom fram í ræðu hennar á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar sem haldinn var um helgina á Laugabakka í Miðfirði.

„Þrjár grundvallarkröfur í atvinnu- og samgöngumálum sem Samfylkingin gerir til næstu ríkisstjórnar – sem við bjóðum okkur fram til að leiða. Þannig er þetta eins konar verklýsing fyrir nýja ríkisstjórn. Grundvallarkröfur í mikilvægum málaflokkum og aðgerðir til árangurs svo hægt verði að ná settu marki á tveimur kjörtímabilum.

Í fyrsta lagi: Krafa um framfarir í orku- og samgöngumálum – þar sem við setjum fram töluleg markmiðum um orkuöflun til ársins 2035 og fjárfestingar í samgönguinnviðum. Í öðru lagi: Krafa um skynsemi í auðlindastefnu – með almennum auðlindagjöldum frá fyrsta kjörtímabili, sem renni til nærsamfélags og þjóðar. Og í þriðja lagi: Krafa um íslensk kjör og atvinnustefnu fyrir Ísland – með áherslu á að auka framleiðni í hagkerfinu og að taka fast á félagslegum undirboðum á vinnumarkaði.“

Kristrún sagði þetta vera „vaxtarplan sem gengur út á að lyfta innviðum Íslands upp um flokk á næstu 10 árum, til að auka öryggi og efla atvinnulíf víðs vegar um landið.“

Hún gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir framkvæmdastoppi frá 2017 „þar sem framkvæmdir hafa hafist við 0 jarðgöng og 0 nýjar virkjanir yfir 10 MW – hvort sem litið er til virkjana sem nýta vatnsafl, jarðvarma, vind eða aðra orkugjafa.“

Samfylkingin gerir kröfu um framfarir

Í stjórnmálaályktun fundarins segir að Samfylkingin geri kröfu um framfarir. „Frá aldamótum hafa fjárfestingar í samgöngum dregist aftur úr öðrum Norðurlöndum og meðaltali OECD-ríkja. Og í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur uppbygging orkuinnviða setið á hakanum, þó sérstaklega uppbygging flutningskerfis raforku. Á næstu 10 árum viljum við lyfta innviðum Íslands upp í nýjan styrkleikaflokk til að auka öryggi og efla atvinnulíf um land allt með sjálfbæra þróun leiðarljósi.“ 

DEILA