Salan á Guðbjörgu ÍS lagði ekki grunninn að Jakob Valgeir ehf

Guðbjörg ÍS 46. Mynd: aflafrettir.

Hvorki Þorsteinn Már Baldvinsson né Ásgeir Guðbjartsson komu að stofnun Jakobs Valgeirs ehf í Bolungavík segir Flosi Valgeir Jakobsson. Flosi og bróðir hans Finnbogi stofnuðu fyrirtækið árið 1985 og hefur það verið rekið í Bolungavík síðan.

Vakið hefur athygli um páskana að Þorsteinn Már sagði í síðasta hlaðvarpsþætti Þjóðmála að kaup Samherja á Guðbjörginni ÍS á sínum tíma hafi orðið til þess að Ásgeir Guðbjartsson, einn eiganda að útgerðarfélaginu Hrönn sem átti Guðbjörgina ÍS,  hafi „síðar selt hlut sinn í Sam­herja og nýtt fjár­magnið til að hefja aft­ur út­gerð á Vest­fjörðum. Þar varð til fyr­ir­tækið Jakob Val­geir, sem nú er öfl­ugt út­gerðarfé­lag í Bol­ung­ar­vík.“ segir í frétt Morgunblaðsins af málinu.

Þetta segir Flosi Valgeir að sé misskilningur. Ásgeir Guðbjartsson hafi eftir söluna á Guðbjörginni ÍS árið 1997 keypt smábát og hafið útgerð frá Ísafirði að nýju ásamt syni sínum Guðbjarti. Átta árum síðar, árið 2005, keypti Jakob Valgeir ehf þá útgerð. Með í kaupunum fylgdi kvóti 183 tonn af þorski, 150 tonn af ýsu og 26 tonn af steinbít. Kaupverðið var 135 m.kr. auk áhvílandi skulda 165 m.kr. eða samtals um 300 m.kr.

Salan á Guðbjörginni ÍS hafi því ekki lagt grunn að fyrirtækinu Jakob Valgeir ehf, það var þegar til og hafði verið starfandi í 20 ár. Kvótakaup Jakobs Valgeirs ehf af einum af eigendum Guðbjargarinnar ÍS hafi verið aðeins brot af þeim kvóta sem fylgdi togaranum og greitt var markaðsverð fyrir þann kvóta.

„Mér þykir leiðinlegt að svona misskilningur sé í gangi um Jakob Valgeir í ljósi þess að ég hef alltaf stutt Þorstein Má og varið hans gerðir. Hið rétta er að fyrrverandi eigendur að Guðbjörginni ÍS hafa ekki verið eigendur að Jakob Valgeir eða komið að uppbyggingu þess.“

DEILA