Rannsókn á slysasleppingu: Björk meðal kærenda

Alls voru það nærri 30 kærur sem bárust til Ríkissaksóknara, auk kæru Matvælastofnunar. Voru þar á meðal einstaklingar, veiðifélög, landeigendur, hlutafélög og samtök. Björk Guðmundsdóttir er kærandi fyrir hönd AEGIS, Ægisvaktarinnar sem berst gegn sjókvíaeldi og er á vegum Umhverfissjóðsins, The Icelandic Wildlife Fund (IWF). Meðal annarra kærenda voru NASF á Íslandi, The Icelandic Wildlife Fund, allmörg veiðifélög víða um land og félög sem hafa laxveiðiár á leigu og selja veiðileyfi. Þá eru landeigendur í Ketildölum í Arnarfirði meðal kærenda svo og einstaklingar.

Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar kærði ákvörðun lögreglustjórans á Vestfjörðum um að hætta rannsókn og láta málið niður falla. Hún sagði á sínum tíma að hún teldi ekki aðra en Matvælastofnun hafa kærurétt. Saksóknarinn Dröfn Kærnested komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að allur almenningur hafi hagsmuni af því að villtum ferskvatnsfiskistofnum væri ekki spillt með neikvæðum vistfræðiáhrifum og samþykkti alla kærendur sem aðila máls.

DEILA