Mbl dregur til baka fullyrðingu um Jakob Valgeir

Guðbjörgin ÍS sem seld var Samherja.

Morgunblaðið hefur dregið til baka fullyrðingu sem fram kom í frétt blaðsins í síðustu viku um fyrirtækið Jakob Valgeir í Bolungavík. Sagði blaðið að salan á Guðbjörgu ÍS hefði lagt grunninn að fyrirtækinu Jakob Valgeir og hafði það eftir Þorsteini Má Baldvinsyni. Segir í leiðréttingu Mbl að þetta hafi ranglega verið haft eftir Þorsteini Má.

Áfram stendur sú fullyrðing Þorsteins Más að þeir fjár­mun­ir sem fengust út úr Sam­herja hafi verið nýtt­ir til að kaupa veiðiheim­ild­ir sem voru miklu meiri en á Guðbjörg­inni á sín­um tíma. Lætur hann þar með í veðri vaka að salan hafi verið til góðs fyrir Vestfirðinga.

Með sölunni á Guðbjörgu ÍS til Samherja á sínum tíma fylgdu 3.400 þorskígildistonna kvóti samkvæmt frétt á Bæjarins besta 15. janúar 1997. Ásgeir Guðbjartsson átti 25% í útgerðarfélagi Guðbjargar ÍS. Hann stofnaði síðar útgerðarfélagið Guðbjart ásamt syni sínum, sem gerði út smábát. Það var árið 2005 selt til Jakobs Valgeirs ehf með um 360 tonna kvóta fyrir um 300 m.kr. Forsvarsmenn Jakobs Valgeir segja það hafa verið viðskipti en ekki fjármagnstilfærsla.

Í lok árs 2022 átti Jakob Valgeir ehf 2.821 þorskígildis kvóta í aflamarkskerfinu og 1.337 þorskígildiskvóta í krókaaflamarkskerfinu ssamkvæmt því sem fram kemur í ársreikningi félagsins.

DEILA