Lögreglan á Vestfjörðum: bílvelta á Steingrímsfjarðarheiði og slagsmál á Ísafirði

Í tilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum segir að páskarnir hafi að mestu farið vel fram á Vestfjörðum samkvæmt þeim upplýsingum sem lögregla hefur í sínum fórum:

Aðfaranótt skírdags var einstaklingur handtekinn en við leit á honum fundust fíkniefni og áhöld þeim tengd.

Þá var einstaklingur undir lögaldri inni á vínveitingastað á Ísafirði sömu nótt en honum var ekið heim enda er dvöl einstaklinga yngri en 18 ára óheimil á vínveitingastöðum eftir kl. 22 nema með forráðamönnum eða öðrum nánum aðstandendum 18 ára eða eldri.

Á föstudaginn langa barst tilkynning um bílveltu á Steingrímsfjarðarheið og kom fram að þrír væru í bifreiðinni. Sem betur fer urðu ekki teljandi slys á fólki.

Aðfaranótt laugardags var tilkynnt um slagsmál í miðbæ Ísafjarðar en þau enduðu án vandræða og eftirmála.

Aðfaranótt páskadags átti sér stað líkamsárás í miðbæ Ísafjarðar. Meintur gerandi var handtekinn og vistaður í fangageymslum en hann hafði auk þess verið til vandræða á skemmtistað í bænum skömmu áður.

Sá handtekni var sá eini sem vistaður var um páskana í fangageymslum og er það fremur jákvætt ef miðað er við síðustu ár.

Þá voru einungis þrír ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur frá miðvikudegi til 2. dags páska sem er einnig margfalt minna en verið hefur síðustu ár. Lögregla lítur það mjög jákvæðum augum sér í lagi þar sem mest allt eftirlit með ökuhraða fór fram meðan veður og færð voru góð.

Skemmtanahald á Vestfjörðum fór almennt vel fram þrátt fyrir fjölda fólks á svæðinu og viðburði af ýmsum stærðum og gerðum.

Þá fór tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður fram á Ísafirði í tuttugasta sinn. Hátíðin gekk mjög vel fyrir sig en mikill fjöldi fólks sótti hátíðina.

DEILA