Jörg Erich Sondermann, organisti

F. 7. febrúar 1957 – D. 27. mars 2024.

Jarðsunginn frá Selfosskirkju 10. apríl 2024.

Okkur hér á fjallinu var brugðið að fregna lát góðs og eftirminnilegs orgelleikara, Jörgs E. Sondermanns.  Hann var dugandi organisti í kirkju, bráðfljótur að lesa hljóð af blaði og þess vegna hinn ákjósanlegasti meðleikari.  Glaður var hann að jafnaði í viðmóti og búinn ríkulegri spauggreind.  Þá hafði hann það og sér til ágætis að vera drumbs um froðuvæðinguna, sem nú ríkir í kirkjusöng landsins, ofar hverri kröfu.

Það er meginhlutverk tónlistarinnar í kirkjunni að leiða sálmasönginn og bera hann uppi.  Margur mun þó segja, að með þessari skilgreiningu sé músíkin sett skör lægra en efni standa til.  Hljómlist hefur, eftir því sem tímar hafa liðið fram, orðið æ fyrirferðarmeiri í guðsþjónustunni.  Þegar hálærður organistinn, sem orðinn er síst þýðingarminni en presturinn, hefur kennt kirkjukórnum hin vandlærðustu söngverk og æft fólkið baki brotnu, þá segir sig sjálft, að brýn nauðsyn er að koma þessari kunnáttu í lóg.  Og auk þess vill organistinn einatt hafa meira rými í athöfninni fyrir list sína.  Það mun því ekki óþekkt, að prestar hafi stytt prédikanir sínar til þess að söngur og hljóðfæraleikur kæmist fyrir í messunni. Kirkjukórar eru raunar mesta þarfaþing; Íslendingar syngja af hjartans lyst í réttunum, en á kirkjubekkjunum bíta þeir úr sér tunguna í þvermóðskufullri þögn.

            Sá siður hefur breiðst nokkuð út að undanföru, að minnsta kosti í sumum kirkjum, að söfnuðurinn situr kyrr og hlýðir með athygli á eftirspilið, sem á árum áður tíðkaðist að hafa á meðan fólkið gekk úr helgidóminum og presturinn þakkaði því fyrir komuna.  Þegar þessi lenska barst í tal, sagði fullorðinn kirkjugestur við sóknarprest sinn:  “Æ, það er svo gott að sitja svona út af fyrir sig, slaka á eftir athöfnina og hreinsa hugann!” Ekki fylgir sögunni hversu prestur brást við þessum tíðindum.

            Á síðustu árum hefur þess orðið vart, að organistar spila ekki sálmalögin eins og þau eru hljómsett í “svörtu bókinni”, þ.e. Sálmasöngsbók til kirkju-og heimasöngs, sem þeir Sigfús Einarsson og Páll Ísólfsson bjuggu til prentunar. Þess í stað eru sumir þeirra farnir að setja sína eigin, sjálfvöldu hljóma við laglínuna.  Að þessu hefur verið heilmikil nýlunda og löngum skemmtileg tilbreyting.  En hitt hefur ekki síður viljað brenna við, að með þessari aðferð verði sálmalögin á stundum ögn ankannaleg, að ekki sé sagt framandi.

            Prestur nokkur átti um þessa tísku tal á förnum vegi við Steindór heitinn Zophoníasson, fyrrum bónda í Ásbrekku í Gnúpverjahreppi og organista í kirkjunni á Stóra-Núpi. Steindór var maður bráðgreindur og þar eftir músíkalskur. Útskýrði klerkur þetta fyrirbrigði í löngu máli eins  nákvæmlega og honum var framast unnt; komu þar við sögu flóknar díatónískar módúlasjónir, gabbendar og gott ef ekki samstígar fimmundir, ásamt með sungnum, útúrdúra-kenndum tóndæmum, allt þarna úti á gangstéttinni. En Steini var sem vænta mátti skotfljótur að átta sig á málavöxtum og hitti naglann á höfuðið: “Nú, spila þeir þetta bara eftir eyranu?”

            Guð blessi minningu drengsins góða, Jörgs E. Sondermanns. Guð huggi og styrki ávallt ástvini hans alla.

            Gunnar Björnsson, pastor emeritus.

DEILA