Ísafjörður: Rotarý setur upp upplýsingaskilti

Bótin, Skutulsfirði.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að heimila Rotarýklúbb Ísafjarðar að setja upp upplýsingaskilti í Bótinni á Ísafirði.

Rótarýklúbbur Ísafjarðar hefur um langt árabil sett upp og viðhaldið örnefnaskífu á Arnarnesi,
örnefnaskiltum við þjóðveginn í og við Skutulsfjörð og merkingu friðlýstra húsa á Ísafirði og nágrenni. Nú hyggst klúbburirnn koma upp panorama myndarskilti af innfirði Skutulsfjarðar u.þ.b. frá Naustahvilft að Grænagarði, með öllum helstu örnefnum af fjallgarðinum, firðinum og byggðinni.

Staðsetning skiltisins er best í Bótinni, segir í erindi Rótarý, þar sem Pollgatan mætir Skutulsfjarðarbrautinni við hringtorgið. „Ef vel tækist til, stendur hugur klúbbfélaga til að bæta við svona
skiltum víðar í framtíðinni, t.d. með útsýni til norðurs við göngustíginn fyrir ofan Ölduna, gegnt Sólgötunni og hugmynd er um örnefnaskilti með panoramamynd í norður frá Vébjarnareyri.“

Dæmi um örnefnaskilti Rótarý.

DEILA