Ísafjörður: Réttarholtskirkjugarður stækkaður

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að hefja skipulagsvinnu við stækkun kirkjugarðsins á Réttarholti í Skutulsfirði.

Ekkert deiliskipulag er í gildi fyrir kirkjugarðinn. Gert er ráð fyrir að breyta aðalskipulagsinu og gera samhliða nýtt deiliskipulag fyrir kirkjugarðinn.

Markmið Ísafjarðarbæjar með skipulagsgerðinni er að tryggja nægt framboð legstaða í Skutulsfirði fyrir öll trúfélög. Einnig að tryggja að framkvæmdir valdi sem minnstum neikvæðum áhrifum á umhverfið og að vandað verði til umhverfisfrágangs.

Skipulagssvæðið tekur til Réttarholtskirkjugarðs og aðliggjandi svæðis til suðurs og vesturs. Svæðið er um 4,5 ha að stærð og er allt í eigu Ísafjarðarbæjar. Sunnan við garðinn eru tún sem til skamms tíma voru nýtt fyrir frístundabúskap í Engidal. Skipulagssvæðið er í 8-12 m hæð yfir sjávarmáli og stendur talsvert hærra en aðliggjandi land að norðan, austan og sunnan.

Gert er ráð fyrir að vinnslutillögur verði auglýstar í apríl og að skipulagstillögur verði auglýstar í maí – júní. Gert er ráð fyrir að breyting aðalskipulagsins og nýtt deiliskipulag geti tekið gildi í haustið 2024.

DEILA