Ísafjarðarbær: 119 m.kr. afgangur af rekstri í fyrra

Ársreikningur 1023 fyrir Ísafjarðarbæ hefur verið lagður fram og verður tekinn til fyrri umræðu á næsta bæjarstjórnarfundi. Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins skilaði afgangi upp á 119 m.kr. Fjárhagsáætlunin gerði ráð fyrir 274 m.kr. afgangi svo niðurstaðan er um 155 m.kr. lakari. Þegar skoðuð er eingöngu afkoma sveitarsjóðs var halli á rekstrinum 61 m.kr. Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs segir að hækkun lífeyrisskuldbindinga vegna Brúar lífeyrissjóðs fari langt með að skýra muninn.

Rekstrartekjur sveitarfélagsins að meðtöldum B hluta stofnunum voru 7.349 milljónir króna. Útsvar og fasteignaskattur skilaði 3.406 milljónum króna og framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga voru 1.630 m.kr.

Stærsti útgjaldaliðurinn voru laun og tengd gjöld. Þau námu 3.561 m.kr. Til viðbótar voru lífeyrisskuldbindingar 282 m.kr. Samtals voru þessi útgjöld 3.843 m.kr. sem voru 52% af öllum rekstrarútgjöldum. Í árslok voru 428 starfsmenn hjá Ísafjarðarbæ í 299 stöðugildum. Hafði starfsmönnunum fjölgað um 13 á árinu en stöðugildum hins vegar fækkaði um 14.

Fram kemur í ársreikningnum að tekjur hafnarsjóðs af skemmtiferðaskipum voru 458 m.kr. Árið 2023 voru 187 skemmtiferðaskipakomur hjá höfnum Ísafjarðarbæjar, með um 184.000 farþega. Ekki kemur fram hverjar heildartekjur hafnarinnar voru en tekjur umfram rekstrarútgjöld voru 226 m.kr. og því mikill afgangur af rekstrinum.

Hjá höfnum Ísafjarðarbæjar starfa 12 starfsmenn í 10,5 stöðugildum undir stjórn Hilmars K. Lyngmo,
hafnarstjóra. Þar af eru þrír starfsmenn á Suðureyri, Flateyri og Þingeyri.

Landaður afli hjá Ísafjarðarhöfnum var 20.752 tonn, þar af 17.143 tonn af sjávarafla og 3.608 tonn af eldisfiski. Innflutt rækja var um 3.500 tonn til viðbótar. Vöruflutningar um hafnirnar námu 18.645 tonnum. Útflutningur var liðlega 10 þúsund tonn , innflutningur 6.472 tonn og strandflutningur 2.142 tonn.

DEILA