Hólmavík: Óánægja með ráðstöfun sértæka byggðakvótans

Café Riis á Hólmavík.

Greinilegrar óánægju gætir hjá meirihluta sveitarstjórnar í Strandabyggð með ákvörðun Byggðastofnunar um ráðstöfun 500 tonna sértæka byggðakvótans sem ætlað er að að bæta atvinnuástand á staðnum vegna lokunar á rækjuverksmiðju Samherja síðastliðið sumar.

Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri vísar spurningum Bæjarins besta um áformin á nýtingu kvótans til Vissu útgerðar ehf og til Byggðastofnunar og segir að Byggðastofnun verði að svara því beint hver áhrifin af kvótanum verði.

Aðspurður um hvað hafi orðið til þess að ekki var úthlutað til Stakkavíkur segir Þorgeir að Byggðastofnun vildi „meina að fyrirtækið væri ekki aðili að neinni formlegri umsókn, þó svo hafi verið í upphafi og þó svo áhugi Stakkavíkur hafi alltaf legið fyrir.  Ég vísa að öðru leyti á Byggðastofnun.“

Byggðastofnun hefur ekki enn svarað fyrirspurn um það hvaða umsóknir bárust um byggðakvótann og hvað áætlað er að mikið magn fari í gegnum fiskvinnslu á staðnum vegna sértæka byggðakvótans.

Í bókun meirihluta sveitarstjórnar, Strandabandalagsins, um málið í síðustu viku segir að Stakkavík frá Grindavík hafi lýst yfir skýrum áhuga á að flyja sína fiskvinnslu til Hólmavíkur, vegna aðstæðna í Grindavík og myndi leggja til viðbótarframlag með eigin kvóta og „stuðla þannig að enn öflugri fiskvinnslu hér á Hólmavík, sem gæti skapað tugi starfa á sjó og í landi.“ Segir í bókuninni að um 1.500 – 2.000 tonna fiskvinnslu gæti verið að ræða og hugsanlega enn umfangsmeiri á næstu árum.

Strandabandalagið hvetur alla hlutaðeigandi til að hugleiða samstarf sem gæti leitt af sér sameiginlega umsókn um sértækan byggðakvóta til lengri tíma.

Strandabandalagið hefur boðað til opins fundar um atvinnumál í Riis húsinu a morgun kl 20.

DEILA