Heill heimur af börnum í Grunnskólanum á Ísafirði

Frá setningu Menningarmótsins.

Nú er í gangi barnamenningarhátíð Vestfjarða, Púkinn. Í tengslum við hana hefur miðstigið í Grunnskólanum á Ísafirði tekið þátt í spennandi verkefni í vikunni sem ber heitið Heill heimur af börnum – börn setja mark sitt á Íslandskortið.

Þau Aðalheiður Orradóttir, Emilía Rós Sindradóttir, Matthías Kristján Magnason og Pétur Arnar Kristjánsson eru öll nemendur í 7. bekk á Ísafirði og tóku þátt í verkefninu. Þau voru sammála um að það væri áhugavert að taka þátt í verkefni sem þessu og það væri líka mjög gaman að fá inn hluti sem brytu upp skólastarfið og leyfðu þeim að spreyta sig á einhverju nýju. Aðspurð um hvað væri mikilvægt við vinnu bentu þau á að það væri mikilvægt fyrir þá sem stýra svona vinnu að hafa þátttakendur. Það er Kristín Vilhjálmsdóttir sem leiðir verkefnið og hefur hún mikla reynslu af slíkri vinnu bæði á Íslandi og í Danmörku.

7. bekkur: frá vinstri: Emilía Rós Sindradóttir, Aðalheiður Orradóttir, Pétur Arnar Kristjánsson og Matthías Kristján Magnason.

Í gær fór fram Menningarmót í skólanum þar sem börnin kynntu niðurstöður vinnunnar sem þau hafa átt í. Það var gríðarlegt líf og fjör á menningarmótinu. Frábært var að sjá hvað krakkarnir höfðu lagt sig fram og voru dugleg að sýna og segja frá. Verkefnið var fjölþætt, krakkarnir fundu þau gildi sem þeim þótti mikilvægust og bjuggu til úr þeim regnboga á fjölmörgum tungumálum sem nú hangir uppi í anddyri skólans, þau útbjuggu sólir þar sem þau settu inn allt það sem lætur þau ljóma, þau gerðu tímalínu þar sem þau settu inn það markverðasta frá lífi þeirra og settu saman fjársjóðskistu með hlutum sem hafa þýðingu fyrir þau.

Einnig svöruðu þau spurningunni hvað þau myndu gera ef þau væru forseti, en verkefnið er einnig liður í 80 ára afmæli lýðveldisins Íslands sem fagnað er í ár og eru það Safn Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum sem fara fyrir því.

Krakkarnir sögðu það hafa verið miserfitt að gera hlutina í verkefninu, en sennilega hafi það verið snúnast að gera tímalínuna. Þennan hluta unnu þau heima og sögðu þau hafa verið hjálplegt að fá foreldra sína til að skoða þetta með sér. Þau sögðu það hafa verið skemmtilegt að fá tækifæri til að rifja svona upp og það hafi verið gaman að fá að sjá hjá hinum krökkunum hvað þau settu hjá sér og þannig kynnast hvert öðru betur.

Um mikilvægi þess að hafa barnamenningarhátíð á svæðinu sögðu krakkarnir það mikilvægt svo kynna mætti listir og menningu fyrir börnum og einnig til að þau fengju að vera þátttakendur í listsköpun.

Menningarmót: Krakkarnir útbjuggu meðal annars  sólir og fjársjóðskistur.

DEILA