Glóbrystingur í Bolungarvík og snæugla í Súðavík

Húsráðendur þau Arngrímur Kristinsson og Margrét Sæunn Hannesdóttir hafa gert sitt besta til að dekra við fuglinn og tók Arngrímur þessar mynd

Á vefsíðu Náttúrufræðistofnunar Vestfjarða er sagt frá því að glóbrystingur (Erithacus rubecula) hafi gert sig heimakominn í garði í Bolungarvík frá byrjun árs.

Eins og sést á mynd er glóbrystingur auðþekkjanlegur. Bringan og andlitið eru rauðgul ásamt því að hann er smár, um 14 cm að lengd og vænghafið um 20-22 cm.

Glóbrystingur er algengur haustflækingur á landinu þótt við fáum ekki oft fregnir af komu hans á okkar slóðir. Hann lifir oft af veturinn og hefur verpt á landinu. Þótt megin fæða hans séu ýmis smádýr étur hann einnig ber og fræ frá hausti fram á vor. Þegar hann flækist til landsins sækir hann því í garða þar sem fuglum er gefið.

Snæugla á Vestfjörðum 2023. Mynd Kristjana Einarsdóttir

Hinn gesturinn er snæugla sem Þórður Sigurðsson og fjölskylda sáu í Súðavík í byrjun febrúar.

Lengd snæugla er 53-66 cm og vænghafið 140-170 cm og er kvenfuglinn jafnan stærri.

Tegundin verpti af og til í Ódáðahrauni á árunum 1932-1974 og segir Sigurður Ægisson eitt til tvö hreiður hennar hafa fundist nær árlega á Vestfjörðum síðan árið 2008.

Snæuglan er hánorrænn fugl sem hér á landi hefur haldið sig mest á hálendi og heiðum þótt af og til sjáist hún í byggð.

DEILA