Forsetakosningar: Katrín með langmest fylgi á vestanverðu landinu

Katrín Jakobsdóttir.

Katrín Jakobsdóttir er með langmest fylgi forsetaframbjóðenda á vestanverðu landinu samkvæmt nýrri könnun Maskínu. Er hún með 36,2% fylgi sem er heldur meira en fylgi hennar mælist á landinu öllu eða 31,4%. Maskína greinir fylgið eftir landshlutum og eru Vesturland og Vestfirðir tekin saman í eitt svæði. Fylgi Katrínar er hvergi meira en einmitt á Vesturlandi og Vestfjörðum. Næstmest fylgi hennar er 32,5% í Reykjavík.

Baldur Þórhallssson er í öðru sæti með 21,8% en heldur meira eða 24% á landinu öllu. Annars er fylgi hans mjög jafnt yfir landið. Á vestanverðu landinu er Halla Hrund Logadóttir í þriðja sæti með 13,5% og Halla Tómasóttir mælist með 11,6%. Yfir landið mælast þær með minna fylgi en þetta, Halla Hrund með 10,5% og Halla Tómasdóttir með 6,7%. Jón Gnarr er svo í fimmta sæti með aðeins 10,4% sem er miklu lægra en á landsvísu en hann mælist með 18,9% fylgi. Er fylgi hans langlægst á vestanverðu landinu og aðeins helmingur þess sem er á höfuðborgarsvæðinu.

Könnunin fór fram dagana 12. til 16. apríl 2024 og voru svarendur 1.020 talsins.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Svarendur eru alls staðar að af landinu 18 ára og eldri. Svör voru vegin samkvæmt mannfjöldatölum Hagstofunnar um kyn, aldur, búsetu og menntun, þannig að þau endurspegla þjóðina prýðilega segir í kynningu Maskínu.

DEILA