Fjarskiptaáætlun Vestfjarða: 100% dekkning á stofnvegum fyrir árslok 2026

Út er komin skýrsla um stöðu fjarskiptamála 2023-2024 á Vestfjörðum. Fyrirtækið Gagna ehf. vann hana fyrir Fjórðungssamband Vestfirðinga og er skýrslan samantekt upplýsinga um núverandi stöðu og væntanlegar breytingar fjarskiptamála á Vestfjörðum.

Skýrslan tekur til stöðu farneta (farsímadreifikerfa) og fastaneta (ljósleiðara og koparheimtauga) ásamt upplýsingum um öryggissamskiptakerfi Tetra og dreifingu útvarps. Upplýsingar í þessari skýrslu eru fengnar með viðtölum og gögnum frá Fjarskiptastofu, Neyðarlínunni, Ríkisútvarpinu, Vegagerðinni
og fjarskiptafélögunum Símanum, Sýn, Nova, Mílu og Snerpu auk nokkurra heimaaðila á Vestfjörðum.

Farnet

Í skýrslunni er notast við heitið „Farnet” yfir dreifikerfi í lofti (e. mobile network) sem farsímar og ýmis önnur nettengd tæki nýta til net og talþjónustu. Í dag bera þessi dreifikerfi hvort sem tæknin heitir 2G (GSM), 3G, 4G eða 5G, netumferð fyrir mismunandi tæki, tölvur sem síma, en ekki bara símtöl.

Helstu niðurstöður skýrslunnar fyrir farnet eru:

Fjarskiptafélögin skulu klára 100% dekkningu á stofnvegum fyrir árslok 2026 samkvæmt skilyrðum í tíðniheimildum útgefnum í mars 2023.

Í þéttbýli er lögð mun meiri krafa á fjarskiptafélögin um að bjóða meiri háhraðatengingar um farnet. Fyrir árslok 2027 skal 99% heimila og fyrirtækja í þéttbýlum ná amk 250Mb/s tengihraða um farnet. Það verður að mestu eða öllu leyti leyst með 5G farnetum.

Fjarskiptafélögum er ekki skylt samkvæmt sömu tíðniheimildum að auka útbreiðslu sína á vegköflum sem ekki teljast til stofnvega. Fjarskiptafélögum er nú heimilt að eiga samstarf og samnýta sendibúnað til að ná útbreiðslukröfum þar sem markaðsbrestur telst vera til staðar.

Á Vestfjörðum erum ýmis svæði utan þéttustu byggða og svæði sem nýtt eru til útivistar af ýmsu tagi og vegir sem ekki teljast til stofnvega sem lenda utan dekkningakvaða frá Fjarskiptastofu.
Mikilvægt er að heimaaðilar eigi frumkvæði að því að fá þar fram úrbætur með samtali við bæði opinbera aðila svo sem Öryggisfjarskipti og Fjarskiptastofu og eins fjarskiptafélögin sjálf. Sveitarfélög eða einkaaðilar sem geta liðkað fyrir slíkum framkvæmdum, til dæmis er varðar aðstöðuöflun eru líklegri til
að ná úrbótum fyrr fram.

Margar ábendingar bárust um svæði þar sem Tetra samband var ekki til staðar eða slitrótt og hefur haft mikil áhrif á viðbrögð og störf björgunaraðila.
Svæðin þar sem Tetra samband er ekki til staðar eða lélegt eru oftast þau sömu og þar sem ekki er símasamband um farnet enda Tetrasendar og farnetssendar oft í sömu fjarskiptaaðstöðum. Ekki hefur enn fengist fjármagn til frekari uppbyggingu Tetra kerfisins. Bent er á að fyrirliggjandi uppbygging nýrra sendistaða í tengslum við Stofnvegadekkun farneta getur nýst Tetra á ýmsum stöðum ef fjármagn fengist til uppbyggingar Tetra kerfisins.

24 nýir sendistaðir

Til þess að ná markmiðinu um 100% dekkningu á stofnvegum er talið að þurfi 24 nýja sendistaði á Vestfjörðum. Í skýrslunni segir að ríkið muni í gegnum félag sitt Öryggisfjarskipti ehf taka þátt í kostnaði við uppbyggingu þessara nýju sendistaða sem að mestu leyti eru á fjallvegum.

Sendistaðirnir 24 sem áætlað er að þurfi að bæta við á Vestfjörðum til að ná markmiðum um slitlausa þjónustu á stofnvegum samkvæmt verkáætlun Fjarskiptastofu má sjá á korti hér fyrir neðan.
Rétt er að geta þess að vinna að nánari útfærslu við val sendistaða stendur enn yfir með fjarskiptafélögunum (janúar 2024).

Fjórðungssamband Vestfirðinga stendur fyrir fundi um fjarskiptamál á Vestfjörðum sem haldinn verður á Teams í dag, mánudaginn 8. apríl, kl. 12:30. Á fundinum mun Þorsteinn Gunnlaugsson ráðgjafi hjá Gagna kynna Fjarskiptaáætlun Vestfjarða.

Hér er hægt að tengjast inn á fundinn

DEILA