Brunavarnir Suðurnesja taka að sér eldvarnareftirlit á sunnanverðum Vestfjörðum

Ráðhús Vesturbyggðar.

Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur hafa samið við Brunavarnir Suðurnesja um að það taki að sér eldvarnareftirlit á þjónustusvæði sveitarfélaganna.

Tilgangur samningsins er að halda uppi reglubundnu eftirliti á grundvelli og í samræmi við lög um brunavarnir. Samningurinn gildir frá 1. ágúst 2023 til 31. desember 2024.

Slökkviliðsstjóri BS tekur að sér ábyrgð á eldvarnareftirliti í sveitarfélögunum eftir þeim lögum og reglum sem gilda um eldvarnareftirlit á þeim tíma sem samningurinn er í gildi. Tekur hann stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt lögum um slökkvilið varðandi eldvarnareftirlit og getur beitt réttar- og þvingunarúrræðum í sveitarfélögunum.

Við framkvæmd eftirlits skal stuðst við brunavarnaráætlun Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps. Vísað er í brunavarnaráætlunina og meðfylgjandi forgangslist á skoðunarskyldu húsnæði í Vesturbyggð og Tálknafjarðarhrepp.

Eftirlitsmenn mæta til úttektar í sveitarfélögum tvisvar sinnum yfir veturinn og verða í eina viku í senn, eða skemur útfrá verkefnastöðu, og taka til eftirlits fasteignir í samræmi við forgangslista.

Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður við skoðun fasteigna á gildistíma samningsins sé kr. 3.750.000.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkti á fundi sínum fyrir páska viðauka við fjárhagsáætlun ársins til þess að mæta kostnaði við samninginn.

DEILA