Bolvíkingar, til hamingju með daginn

Í dag 10. apríl eru 50 ár frá því að bærinn okkar, Bolungarvík, fékk kaupstaðarréttindi. Þar með breyttist heiti sveitarfélagsins úr Hólshreppi yfir í Bolungarvíkurkaupstað. Þetta var þó ekki bara breyting á nafni heldur var bæjarfélagið sjálfstætt lögsagnarumdæmi við það að fá kaupstaðarréttindin og fékk þar með sjálfstætt ákvörðunarvald um flest málefni bæjarfélagsins.  Þvílík tímamót!  

Það er ýmislegt líkt með bæjarfélaginu okkar árið 1974 og nú 50 árum síðar. Árið 1974 bjuggu í Bolungarvík 1027 manns og í dag erum við 1031. Árið 1974 voru uppbyggingartímar í atvinnulífinu í bænum með togaravæðingu fiskiskipaflotans og í dag er uppbygging atvinnulífs á breiðari grunni sem drífur bæjarfélagið áfram og skapar tækifæri til frekari vaxtar og hagsældar.

Bæjarbragurinn okkar, Í Bolungarvíkinni, minnir okkur á tímana tvenna en eitt er víst að í Bolungarvíkinni er björgulegt lífið.

Kaupstaðurinn hefur þurft að berjast fyrir tilverurétti sínum, gengið í gegnum erfiðleika sem oftar en ekki hafa verið harðir og sárir. Bolvíkingar hafa sniðið sér stakk eftir vexti, barist áfram, snúið vörn í sókn og geta bæjarbúar nú horft stoltir fram á veginn.

Allt frá Þuríði Sundafylli til dagsins í dag stöndum við hér í fallegu Víkinni okkar. Tímarnir hafa breyst og mennirnir með en eitthvað er það sem dregur okkur hér að. Framtíðin er björt, íbúum fjölgar, tækifærin eru ærin, spennandi og þörf. Aukin fjölbreytni er í atvinnulífinu, öflugur mannauður sem vill láta samfélagið njóta krafta sinna, menntunar og reynslu. Atorkusemi, elja og áræði fyrirtækja bæjarins skila sér svo sannarlega í samfélagið og því ber að þakka.

Í ár verða viðburðir og hátíðarhöld í tilefni afmælisins og hvet ég bæjarbúa, búandi og brottflutta, og nærsveitunga að taka þátt í þeim viðburðum sem haldnir verða.

Ég vona að Bolvíkingar flaggi fyrir afmælisbarninu í tilefni dagsins.

Ó, lof sé þér háttvirta Bolungarvík!

Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir

Oddviti Sjálfstæðismanna og óháðra í bæjarstjórn Bolungarvíkur

DEILA