Viðtalið: Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir

Mynd með þremur af doktorsnemum Guðbjargar og sonum hennar tveimur sem hafa oft aðstoðað við vettvangsvinnu. síðustu ár.

Dr. Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir forstöðumaður rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum, sem er í Bolungavík, fékk í vikunni góðan styrk frá Háskólanum til þess að sinna rannsóknum á svæðisbundnum takmörkunum á veiðum. Bæjarins besta lék forvitni á að vita meira um Guðbjörgu og störf hennar.

Ég ólst upp í Borgarfirði, Skotlandi og á höfuðborgarsvæðinu og hafði satt að segja áhuga á flestu sem barn. Ég ætlaði að verða ljónatemjari, rithöfundur, heimspekingur og lögfræðingur.  Þegar koma að því að hefja háskólanám hneigðist ég þó frekar til raungreinanna og ég hóf fyrst nám í jarðfræði, stoppaði stutt í jarðeðlisfræði og landfræði en skipti svo að fullu yfir í líffræði þaðan sem ég útskrifaðist vorið 2000. Sumarið 1998 bauðst mér nefnilega að vinna að sjálfstæðu rannsóknaverkefni, styrktu af Nýsköpunarsjóði námsmanna, norður á Hólum. Verkefnið fjallaði um tegundamyndun hornsíla, þ.e. hvernig valkraftar umhverfisins geta orðið til þess að ólíkar tegundir verða til. Þarna kynntist ég fyrst rannsóknum og þessi sumardvöl átti eftir að hafa mikil áhrif á mína framtíð. Mér fannst þetta nefnilega svo skemmtilegt að verkefnið varð grunnur að doktorsverkefni mínu í líffræði.

Haustið 2000 flutti ég til Skotlands til náms. Verkefnið fól í sér fjölbreytta aðferðafræði, mælingar á hegðun, hefðbundna vistfræði og stofnerfðafræði. Það hefur alla tíð fylgt mér að mér finnst gaman að skoða sama viðfangefnið frá ólíkum hliðum til að fá betri heildarmynd.

Þremur árum eftir að ég kem heim þá býðst mér starf forstöðumanns rannsóknaseturs HÍ á Vestfjörðum en setrið var þá nýstofnað.  Eftir að ég kom hingað vestur fóru rannsóknirnar mínar að snúast meira um sjávarfiska. Mér fannst áhugaverðara að vinna við sjóinn, það er flóknara, bæði náttúrufarslega en líka þar sem nýting og stjórnkerfið sem við höfum byggt í kringum nýtinguna hefur óneitanlega áhrif á fiskana. Þetta þarf allt að skoða í stóru samhengi. Í dag eru flestar mínar rannsóknir tengdar þorski á einhvern hátt.

Hugmyndafræðin á bak við rannsóknasetur HÍ er að skapa vettvang fyrir rannsóknir á landsbyggðinni og annan snertiflöt fyrir landsbyggðina við Háskóla Íslands. HÍ stendur auðvitað fyrir fjölmörgum verkefnum og tækifærum til menntunar á landsbyggðinni sem tengjast rannsóknasetrunum lítið eða ekkert. Rannsóknasetrin eru öðruvísi að því leiti að starfsfólkið er búsett á svæðinu.

Ég hef ansi oft verið beðin um að svara því hver eiginleg gagnsemi setranna er og hef því eytt töluverðum tíma í að velta því fyrir mér. Fyrir það fyrsta erum við auðvitað viðbót við það sem fyrir er og sem slík afskaplega hagstæð í rekstri! Í upphafi þá fylgdi grunnfjárveiting af fjárlögum sem dugði fyrir launum forstöðumanns og húsnæði. Þessi fjárveiting hefur hinsvegar lækkað mjög og dugir í dag ekki fyrir hálfum launum. Háskóli Íslands leggur að sjálfsögðu til rekstursins en stór hluti okkar starfsemi er fjármagnaður af sértekjum. Þannig rekstur er eðli málsins samkvæmt sveiflukenndur en við höfum síðustu ár að jafnaði verið tveir fastir akademískir sérfræðingar, 2-4 doktorsnemar og síðan tímabundið starfsfólk. Síðan gerist það alltaf öðru hvoru að nemar starfa hjá okkur á öðrum forsendum, með eigin fjármögnun eða sem gestir.

Einhverntíman var ég spurð að því hvort þetta kostaði nokkuð, þ.e. doktorsnemarnir. Á mínu fræðasviði er doktorsnám alls ekki ókeypis! Ég geri ráð fyrir að kostnaður setursins við hvern nema sé 40-60 milljónir. Það er þó til mikils að vinna því með doktorsnámi erum við að mennta mjög hæfa sérfræðinga sem geta lagt mikið til bæði innan rannsóknaumhverfisins en líka á öðrum sviðum samfélagsins.

Þetta væri auðvitað ekki hægt nema í gegnum styrkjakerfið og munar þar langmestu um að við höfum fengið níu styrki frá rannsóknasjóði Rannís þessi 15 ár sem við höfum starfað. Þessir styrkir eru forsenda menntunar og þjálfunar ungra vísindamanna og auðvitað afskaplega skemmtilegt að geta boðið það hér á Vestfjörðum.

Frá persónulegum sjónarhóli tel ég þó helsta ávinninginn af rannsóknasetrum HÍ vera aukna víðsýni og nýsköpun í rannsóknum. Þá á ég aðallega við fyrir okkur sem störfum hjá setrunum og fyrir rannsóknaumhverfið. Rannsóknasetrin hafa orðið vettvangur fjölmargra nýrra verkefna sem annars hefðu aldrei orðið til. Þá gerir smæðin og fjarlægðin það að verkum að við erum alltaf vakandi fyrir því að rækta samstarf og tengingar. Á sama tíma þá felur búseta og störf í litlu samfélagi það í sér að það verður afar erfitt að festast í sínum fílabeinsturni eða bergmálshelli. Það sama gildir auðvitað í hina áttina, nálægðin gefur færi á að kynnast vel rannsóknastarfseminni ef áhugi er fyrir hendi. Setrið er alltaf opið og við tökum á móti mörgum einstaklingum, hópum og nemum á hverju ári.

Ég hef búið hér með hléum síðan 2008 og líkar það vel enda kem ég alltaf aftur. Ég á stóra samsetta fjölskyldu og hef stundum velt því fyrir mér hvort ég hefði getað stundað rannsóknir á sama hátt annarsstaðar. Þegar ég var í námi var það enn algengt að konur á mínum aldri hættu í doktorsnámi eða fóru ekki lengra innan háskólanna ef þær urðu óléttar. Ég átti elsta son minn á meðan ég var í doktorsnámi og í minningunni skrifaði ég ritgerðina með hann í fanginu. Mínar fjölskylduaðstæður áttu því þátt í þessu vali og barnlaus hefði ég kannski kosið að búa áfram í Bretlandi.

Börnin eru það í Bolungarvík sem ég er þakklátust fyrir. Ég hef aldrei þurft að hafa neinar áhyggjur af börnunum mínum hér, hvort sem þau eru í leikskóla, skóla, úti að leika eða hjá vinum. Bolungarvík heldur afskaplega vel utan um börn á öllum aldri. Það hefur alltaf verið mín reynsla.

En mér líður ekki bara vel hér vegna barnanna. Á Vestfjörðum finnur maður fyrir náttúrunni á áþreifanlegri hátt en víða annars staðar. Fólk borgar háar upphæðir fyrir að komast úr borgarumhverfinu og endurskapa svona náttúruupplifun en hér er hún allt um kring. Mér finnst betra að búa í náttúrunni og sækja borgarumhverfi þegar ég vil. Sem kemur reyndar oft fyrir líka.

Annars er ég frekar leiðinleg þegar kemur að áhugamálum. Rannsóknirnar mínar eru mitt áhugamál og ég er alltaf að læra eitthvað nýtt þar, núna er ég t.d. í námi í opinberri stjórnsýslu sem mér finnst gagnast vel í mínum rannsóknum tengt náttúruvernd og verndarsvæðum.

Frítíma mínum eyði ég að öðru leiti oftast með fjölskyldu eða í útivist af einhverju tagi. Mér finnst t.d. skemmtilegt bæði að skíða og hlaupa. Þegar ég get sæki ég sýningar og söfn og les bækur en ég hef áhuga á bæði myndlist og bókmenntum. Það er kannski hin hliðin á mér sú sem er minna sýnileg.

DEILA