Vatnsdalsvirkjun þarf að komast í umfjöllun í rammaáætlun

Orkubú Vestfjarða óskaði eftir því fyrir u.þ.b. ári síðan að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra breytti reglum um friðlandið í Vatnsfirði í Vesturbyggð, þannig að unnt sé að taka Vatnsdalsvirkjun til umfjöllunar í rammaáætlun og bera saman við aðra kosti. Orkubúið lagði síðan fram greinargerð í haust, sem unnin var af VSÓ Ráðgjöf, um möguleg umhverfisáhrif af slíkri framkvæmd. Umsagnir bárust frá 12 aðilum, fagstofnunum, samtökum og einstaklingum, auk umsagnar frá Vesturbyggð.

VSÓ hefur í samráði við OV dregið saman aðalatriði umsagnanna og viðbrögð við þeim í minnisblaði sem nú hefur verið sent ráðuneytinu. Megin viðfangsefnin snúa að birkiskógum, óbyggðum víðernum, vatnamálum, samfélagsþáttum og valkostum auk óvissu um umhverfisáhrif.

Hér verður farið yfir viðbrögð við nokkrum af helstu þáttum sem voru umsagnaraðilum ofarlega í huga og dregnar ályktanir.

Áhrif á birkiskóga innan friðlands 0,2%
Í minnisblaði VSÓ kemur fram að innan friðlandsins séu 1.977 ha af kjarrskógarvist (birki).  Fyrsta greining á raski vegna framkvæmda bendir til að 0,2% af birkiskógum friðlandsins raskist.  Í rammaáætlun og við umhverfismat munu koma fram nánari upplýsingar um mikilvægi birkis á svæðinu og á landsvísu og gerð ítarlegri grein fyrir áhrifum framkvæmda. Það er ljóst að áhrif á birkiskóg í friðlandinu eru hverfandi.
Áhrif á óbyggð víðerni á Íslandi lítil
Í umsögnum kemur fram að áhrifin verði einkum neikvæð á víðerni Glámusvæðisins. Það sem vekur hins vegar sérstaka athygli er að miðað við fyrirliggjandi gögn eru framkvæmdir sem tengjast Vatnsdalsvirkjun ekki innan óbyggðra víðerna sbr. mynd 1.  Staðsetning miðlunarlóna virkjunarinnar munu þó skerða þau óbyggðu víðerni sem eru nær lónunum en 5 km eins og sýnt er  mynd 1. Áhrifin á óbyggð víðerni eru þó einungis 0,41% af óbyggðum víðernum á Vestfjörðum. Er þar miðað við útreikninga sem unnir eru af Rannsóknasetri HÍ á Hornafirði að frumkvæði Skipulagsstofnunar.  Röskunin sem hlutfall af óbyggðum víðernum á landsvísu er algjörlega hverfandi eða 0,027% samkvæmt áðurnefndu minnisblaði.     

Samfélagslegir hagsmunir
Þau gögn sem liggja fyrir varðandi samfélagslega hagsmuni, t.d. í skýrslum sem unnar hafa verið fyrir ráðuneytið á undanförnum árum virðast ekki hafa verið skoðuð ítarlega af umsagnaraðilum. Í þeim gögnum koma fram röksemdir fyrir nauðsyn þess að auka raforkuöryggi á Vestfjörðum. Í skýrslunum er m.a. lagt til að heimila að Vatnsdalsvirkjun verði tekin til skoðunar í rammaáætlun ásamt því að bæta flutningskerfi raforku.

Samanburður valkosta
Í fyrrnefndu minnisblaði til ráðherra er lagður fram stuttur samanburður Orkubúsins við Tröllárvirkjun (13,7MW), virkjunarkost sem einnig er á Glámuhálendinu og hefur verið settur í nýtingarflokk í tillögu að rammaáætlun 4. Í þeim samanburði kemur fram að margt bendi til þess að umhverfisáhrif vegna virkjunar í Vatnsdal séu minni en umhverfisáhrif Tröllárvirkjunar auk þess sem virkjun í Vatnsdal er hagkvæmari og staðsetning ákjósanlegri varðandi tengingar.

Til frekari skýringar þá yrði Vatnsdalsvirkjun tengd með 20 km flutningsleið í landi ríkisins og Orkubúsins, beint í tengivirki Landsnets í  Mjólká.  Tengingin væri því óháð núverandi Vesturlínu sem er 45 ára gömul.  Tröllárvirkjun yrði hins vegar tengd við Vesturlínu, bæði vegna smæðar sinnar og meiri fjarlægðar frá tengivirkinu Mjólká og afhendingaröryggið yrði því minna.  Þá er ósamið um land- og vatnsréttindi Tröllárvirkjunar sem eru í einkaeigu.  Vatnsréttindi í Vatnsdal eru hins vegar í eigu ríkisins.  Allir aðrir virkjunarkostir á Vestfjörðum yfir 20MW eru í mun meiri fjarlægð frá tengivirkinu í Mjólká, eða u.þ.b. 100km.   

Aðrir þættir
Umsagnaraðilar komu inn á ýmsa fleiri þætti s.s. hugsanleg áhrif á leirur við Vatnsfjörð og á fuglalíf auk áhrifa á vatnakerfi á svæðinu, breytingar á aurframburði o.fl. Í minnisblaðinu er bent á að greinargerðin byggist á fyrirliggjandi gögnum og er í henni lýst stöðu þekkingar á svæðinu í dag. Farið verði í rannsóknir og gerð ítarlegri grein fyrir framkvæmd og áhrifum ef ákvörðun verði tekin um að fara með framkvæmdina áfram í rammaáætlun og umhverfismat, komist virkjunin í nýtingarflokk.

Ákvörðun um samanburð ekki ákvörðun um virkjun
Orkubú Vestfjarða telur það vera grundvallaratriði að bera Vatnadalsvirkjun saman við aðra kosti sem eru í Rammaáætlun til þess að taka upplýsta ákvörðun sem hentar hagsmunum Vestfjarða best. Ákvörðun um að bera saman áform um Vatnsdalsvirkjun við aðrar virkjunarkosti felur ekki í sér ákvörðun um virkjun.

Sú náttúruvá sem að steðjar á Íslandi um þessar mundir hlýtur enn fremur að leiða til þess að hugað sé frekar að minni og dreifðari virkjunarkostum, utan jarðskjálfta- og eldgosasvæða, eins og Vatnsdalsvirkjun. 

Elías Jónatansson orkubústjóri

DEILA