Úr ársskýrslu Listasafns Ísafjarðar

Í ársskýslu Listasafns Ísafjarðar fyrir árið 2023 kemur fram að farið var í það verkefni að staðsetja, ástandsskoða og skrá safnkost Listasafns Ísafjarðar.

Safnið býr yfir ágætum safnkosti sem telur um 200 verk og prýðir hluti þeirra húsakynni opinberra stofnana víða í bænum en annað er í geymslu.

Hafin var undirbúningsvinna að nýrri skráningu á safneigninni og stefnt að því að nýja skráin verði aðgengileg almenningi.
Ástandsskoðun leiddi í ljós að því miður er nokkuð um skemmdir á verkum safnsins. Má þar fyrst og fremst kenna um langvarandi skorti á viðunandi geymsluaðstöðu þar sem verkin hafa oftar en ekki verið geymd í þrengslum og aðgengi að þeim erfitt. Að sama skapi hefur umgengni við verk í láni ekki alltaf verið sem skyldi og vantað upp á að borin væri nægjanleg virðing fyrir þeim menningarverðmætum menn taka ábyrgð á meðan á láni stendur. Viðgerðir eru óumflýjanlegar og ljóst að mikill kostnaður mun fylgja því verkefni. Hvernig staðið verður að fjármögnun er óljóst á þessari stundu en líklegast að leitað verði aðstoðar einstaklinga og fyrirtækja.

Þá greinir skýrslan frá því að árið 2023 voru haldin þrjú námskeið fyrir börn og unglinga á vegum safnsins. Þátttakendur voru 54 talsins. Haustið 2023 var lögð sérstök áhersla á fræðslu til barna og unglinga til að efla áhuga á myndlist. Farið var af stað með verkefnið SAMANSAFN, safnfræðsla Listasafns Ísafjarðar.

Starfsmaður safnsins fékk til liðs við sig Einar Viðar Guðmundsson Thoroddsen, ungan grafískan hönnuð, til að hanna fræðslulógó fyrir safnfræðsluna. Í framhaldi hélt safnið utan um listasmiðjur fyrir börn og unglinga samhliða haustsýningu safnsins DREGIN LÍNA.


Þátttakendur fengu þar tækifæri til að vinna á skapandi og sjálfbæran hátt undir leiðsögn listamanna sýningarinnar auk annarra menntaðra listamanna. Áhersla var lögð á að þau sæktu innblástur í sýninguna, umhverfi og safneign listasafnsins og túlkuðu á sinn hátt. Að lokum var sýning á afrakstri verkefnisins sett upp á göngum Safnahússins.

Á árinu 2023 var einn starfsmaður við Listasafn Ísafjarðar, Rannveig Jónsdóttir, í 35% stöðugildi sérfræðings. Guðfinna M. Hreiðarsdóttir, forstöðumaður Skjalasafnsins og Ljósmyndasafnsins, er jafnframt forstöðumaður Listasafns Ísafjarðar og sinnir þeim verkefnum listasafnsins sem undir hana falla.

DEILA