Umhverfisstofnun: fékk umsókn Arnarlax árið 2019 -tillaga að starfsleyfi liggur nú fyrir

Umhverfisstofnun tilkynnti í síðustu viku, þann 26.2. 2024, að stofnunin hefði móttekið umsókn um starfsleyfi frá Arnarlaxi ehf. vegna sjókvíaeldis í Ísafjarðardjúpi. Tillaga að starfsleyfi yrði auglýst opinberlega þegar hún liggur fyrir. 

Ekki kom fram hvenær umsóknin barst. Bæjarins besta innti stofnunina eftir því hvenær umsóknin hefði borist. Í svörum sem borist hafa frá stofnuninni kemur fram að umsóknin hafi komið til Umhverfisstofnunar í maí 2019 fyrir þessari framkvæmd.

Gefnar eru þær skýringar á þeim drætti sem orðið hefur á afgreiðslu málsins að á þeim tíma hafi Arnarlax ekki verið búið að fara í gegnum mat á umhverfisáhrifum, en það álit hafi legið fyrir í febrúar 2021.

Þá hafi nýjar ákvarðanir stjórnvalda tafið framvindu málsins. „Frá þeim tíma hefur ýmislegt komið upp á varðandi áhættumat erfðablöndunar, burðarþolsmat, áhættumat siglingaöryggis og mat á áhrifum á vatnshlot. Utanaðkomandi aðstæður sem hafa valdið því að ekki hefur verið hægt auglýsa tillögu fyrr en nú, fyrir utan það að fullnægjandi gögn vegna umsóknar komu ekki inn fyrr en í lok árs 2023.“ segir í svari Umhverfisstofnunar.

Tillaga Umhverfisstofnunar að nýju starfsleyfi Arnarlax ehf. í Ísafjarðardjúpi fyrir sjókvíaeldi með allt að 10.000 tonna lífmassa á hverjum tíma og ófrjóa laxfiska var svo auglýst á fimmtudaginn í síðustu viku, þann 29.2. 2024.

Í tilkynningu Umhverfisstofnunar segir að framkvæmdin rúmist innan burðarþolsmats Hafrannsóknarstofnunar fyrir Ísafjarðardjúp en ekki áhættumats sömu stofnunar og er því heimildin bundin við ófrjóa laxfiska. 

Frestur til að skila inn athugasemdum við starfsleyfið er til og með 2.apríl.

DEILA