Suðurtangi: tillaga að breytingu á aðalskipulagií kynningu

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að setja í kynningu vinnslutillögu að breytingu á aðalskipulagi á Suðurtanga í Skutulsfirði.

Í greinargerð með vinnslutillögunni segir að hvati skipulagsbreytinga á Suðurtanga sé aukin eftirspurn atvinnulóða á Ísafirði síðustu misseri. Í núgildandi aðalskipulagi og gildandi deiliskipulögum á tanganum sé ekki gert ráð fyrir þeim umsvifum sem nú eru á svæðinu og eru fyrirséð, m.a. í tengslum við ferðaþjónustu, fiskeldi og annan sjávarútveg. Skapa þurfi rými fyrir þessar og aðrar atvinnugreinar og samræma við sífellt fjölbreyttari starfsemi hafnarinnar á Ísafirði. Samhliða aðalskipulagsbreytingunni er unnið að endurskoðun tveggja deiliskipulaga á tanganum.

Gildandi skipulag

Skipulagssvæðið tekur til Suðurtanga, sunnan Ásgeirsgötu, sem er neðsti hluti Eyrarinnar. Svæðið sem skipulagið tekur til er um 31 ha. Í gildandi aðalskipulagi er Sundabakki skilgreindur sem hafnarsvæði og innan við hann er iðnaðarsvæði fyrir fjölbreyttan iðnað. Einnig er gert ráð fyrir íbúðarsvæði eftir endilöngum tanganum. Næst sjó á vestanverðum tanganum er svæði fyrir þjónustustofnanir og nyrst er svæði sem tilheyrir miðsvæði. Syðst á tanganum er grænt svæði í gildandi aðalskipulagi.

Íbúðabyggð verði atvinnulóðir

Í aðalskipulagsbreytingunni er ekki gert ráð fyrri nýrri íbúðarbyggð. Þess í stað koma nýjar atvinnulóðir. Vestanverður tanginn breytist úr svæði fyrir þjónustustofnanir og íbúðarsvæði í athafnasvæði og miðsvæði. Gert er ráð fyrir gámasvæði á syðsta hluta tangans og því mun hafnarsvæðið ná til þess hluta. Gert er ráð fyrir landfyllingu á syðsta hluta tangans til að stækka byggingarland og hafnarsvæðið. Með breytingunni verður núverandi og fyrirhuguð starfsemi á skipulagssvæðinu samræmd og þeim tryggt aukið rými til vaxtar. Syðst á tanganum er gert ráð fyrir nýrri u.þ.b. 2,3 ha landfyllingu.

Niðurstaða

Í kynningunni segir að niðurstaða skipulagsbreytinganna sé m.a. fjölgun atvinnulóða, sem ætlað er að hafa jákvæð áhrif á atvinnulíf með aukinni samkeppnishæfni og stuðla að nýsköpun og frekari atvinnutækifærum. Jafnframt er skipulagsbreytingunum ætlað að auka öryggi gangandi með því aðgreina ferðaþjónustu og aðra atvinnustarfsemi. Einnig er hugað að samræmi nýrrar byggðar við fyrirliggjandi byggð og ásýnd svæðisins séð frá Pollinum og íbúðarbyggð.

DEILA