Strandabyggð: skorar á ráðherra að draga til baka þjóðlendukröfur

Hólmavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkti samhljóða á fundi sínum í fyrradag að skora á fjármála-og efnahagsráðherra að draga til baka kröfur um Þjóðlendur á svæði 12 sem bárust Óbyggðanefnd 2. febrúar síðastliðinn.

í ályktuninni segir: „Kröfulýsing fjármála og efnahagsráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins er illa unnin og óskýr. Ástæða er til að ætla að málarekstur fyrir óbyggðanefnd verði mjög kostnaðarsamur og tímafrekur, þar sem um er að ræða mörg lögfræði- og landfræðileg álitamál og afar margir eigendur að þeim eyjum og skerjum sem gerð er krafa í.
Sveitarstjórn Strandabyggðar tekur undir með fjármála- og efnahagsráðherra um nauðsyn þess að fara vel með almannafé og að í ljósi aðstæðna í samfélaginu þurfi að forgangsraða verkefnum. Sveitarstjórn telur að þetta verkefni eigi ekki heima í forgangsröðinni og því sé hægt að fresta.“

DEILA