Stolt fjölmenningarsamfélag?

Sjávarþorp á Vestfjörðum hafa lengi verið rík af íbúum af erlendum uppruna og lengst af var hlutfall þeirra verið hæst á Vestfjörðum, þó það hafi tekið nokkrum breytingum síðustu ár. Heimafólk hefur löngum lagt sig fram um að taka vel á móti nýjum íbúum og hafa mörg spennandi verkefni sprottið úr þeim auðuga jarðvegi. Má nefna fjölmenningarhátíðir sem haldnar hafa verið, stofnun Fjölmenningarseturs, Tungumálatöfra og nú síðast Gefum íslensku séns. Margir einstaklingar hafa sett sinn svip á samfélögin og má þar nefna Ruth Tryggvason sem fluttist til Ísafjarðar frá Danmörku var gerð að heiðursborgara Ísafjarðarbæjar. Okkar auðuga tónlistar- og menningarlíf getum við líka þakkað fjölda kennara af erlendum uppruna sem kenna í tónlistarskólum á Vestfjörðum. Þá er haldin Alþjóðleg Píanóhátíð Vestfjarða á sunnanverðum Vestfjörðum ár hvert að frumkvæði Andrew Yang.  

Árið 1998 voru erlendir ríkisborgarar búsettir á Íslandi 2% af heildarfjölda íbúa. Á Íslandi búa nú samkvæmt Þjóðskrá 400.435 íbúar þar af eru 324.515 íslenskir ríkisborgarar og 75.920 erlendir ríkisborgarar sem er um 19% af heildaríbúafjölda þjóðarinnar. Í Reykjavíkurborg eru erlendir ríkisborgarar 22,7% af heildarfjölda íbúa. Á Vestfjörðum er hlutfall erlendra ríkisborgara 23% af heildarfjölda íbúa, fæstir eru í Árneshreppi eða 4% flestir í Vesturbyggð eða 32%.  Í sveitarfélögum landsins er hlutfall íbúa af erlendum uppruna alveg frá 4% upp í 63% í Mýrdalshreppi.

Hlutfall íslenskra ríkisborgara hefur því sannarlega lækkað jafnt og þétt þar sem erlendum íbúum hefur fjölgað– ekki bara þar sem sjókvíaeldi á laxi er stundað heldur víða um land. Sveitarfélögin Hornafjörður (31%), Mýrdalshreppur (63%), Skaftárhreppur (44%), Ásahreppur (30%), Bláskógabyggð (36%), Borgarbyggð (25%), Grundafjarðarbær (28%), Snæfellsbær (26%), Reykjanesbær (33%), Vesturbyggð (32%) og Reykjavíkurborg (23%) eiga það öll sameiginlegt að þar hefur íslenskum ríkisborgurum fækkað hlutfallslega sem er það sem gerist þegar erlendum ríkisborgurum fjölgar. Tölur í sviga vísa til hlutfalls íbúa af erlendum uppruna.

Við búum í landi sem reiðir sig í síauknum mæli á innflytjendur til að vinna í höfuðatvinnugreinunum, ferðaþjónustu, sjávarútvegi, iðnaði og nú fiskeldi. Hjá hinu opinbera starfa tæplega 9.000 innflytjendur sem meðal annars standa undir þjónustu við aldraða og sinna öðrum störfum á heilbrigðisstofnunum landsins.

Upp á síðkastið hafa birst greinar og ótrúlega sorglegur málflutningur þar sem lagt er út af því að hátt hlutfall íbúa af erlendum uppruna í einstökum byggðakjörnum sé slæmt og ályktað að Íslendingum fækki hlutfallslega vegna þess að þar er starfrækt fiskeldi eða ferðaþjónusta.  Hvaða skilaboð erum við með slíkum málflutningi að senda því fólki sem hér býr og starfar?

Við búum í síbreytilegum heimi og erum þjóð auðug af auðlindum. Við hins vegar erum ekki nægilega mörg til að standa undir þeim kröfur sem við Íslendingar gerum til framúrskarandi lífskjara. Við horfum á framúrskarandi árangur innflytjenda og barna þeirra sem ná þrátt fyrir andstreymi að skara framúr og ná frábærum árangri. Á samfélagsmiðlum er einmitt verið að benda á frábær dæmi svo sem Laufeyju Lín, Emilíönu Torrini og Sveindísi Jane.

Samfélagið okkar breytist í takt við þennan raunveruleika og verkefnin okkar eru að ná að stilla saman strengi gamla og nýja Íslands. Í minnstu bæjum og þorpum landsins þurfum við að ná að opna kvenfélögin og björgunarsveitirnar þannig að erlendu íbúarnir okkar finni sig velkomin og skilji mikilvægi þessara máttarstólpa byggðanna. Kórastarf, áhugaleikfélög, Lions og Oddfellow eru mikilvæg tæki inngildingar fullorðins fólks rétt eins og íþrótta- og tómstundastarf er það fyrir börn og ungmenni. Svo eru það þorrablótin, bæjarhátíðirnar, pöbbinn og allt hitt. Gefum við öllum séns?

Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir,

framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu.

DEILA