Stefnt að seiðaútsetningu við Sandeyri í vor

Kvíasvæði Arctic Sea Farm í Ísafjarðardjúpi.

Arctic Fish stefnir að því að setja út 1 – 1,5 milljón seiða af frjóum eldislaxi í maí næstkomandi í kvíastæði við Sandeyri í Ísafjarðardjúpi, en fyrirtækið fékk í gær rekstrarleyfi frá Matvælastofnun fyrir 8.000 tonna lífmassa af eldislaxi, þar af 5.200 af frjóum laxi. Daníel Jakobsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar staðfestir það.

Fyrirtækið fékk einnig leyfi fyrir kvíastæðum við Arnarnes og Kirkjusund, en áður en unnt verður að setja út seiði þar verða að liggja fyrir samstarfssamningar við Hábrún ehf og Háafell ehf sem tryggja á samræmdar forvarnir og viðbrögð við sníkjudýrum og sjúkdómum.

svæðið er ekki í áhrifasvði geiravita

Fyrir liggur áhættumat fyrir siglingaöryggi fyrir Sandeyri og niðurstaða þess er að svæðið liggur ekki hjá ás siglingaleiðar og er ekki í áhrifasvæði geiravita. Fjarlægð í hvítan geira vita er minnst 1.000 metrar fyrir allt svæðið SN36 og er um 1.100 metrar fyrir fiskeldissvæðið sem skilgreint er undir Sandeyri.
„Niðurstöður áhættumats sýna fram á að leyfi til fiskeldis á svæði við Sandeyri mun ekki hafa teljandi neikvæð áhrif á siglingaöryggi inn djúpið núna og í náinni framtíð. Mjög takmörkuð umferð er um svæðið og eru það aðallega litlir bátar sem sigla þar framhjá.“

Lokaorð áhættumatsins eru að mikilvægt sé „að kvíasvæðin séu merkt eins og reglugerð um fiskeldi nr. 540/20006 kveður á um og uppitími merkinga sé ekki undir 97%, mælt yfir þriggja ára tímabil að lágmarki. Varúðarsvæði upp á 50 m, eins og það er skilgreint í reglugerð um fiskeldi, er talið nægjanlegt.“

DEILA