Húnaþing vestra og ríkið gera samkomulag um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis

Samkomulagið undirritað á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri í Húnaþingi vestra og Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, aðstoðarforstjóri HMS, undirrituðu í gær samkomulag um að auka framboð á íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu á tímabilinu 2024-2029 og fjármagna uppbyggingu á hagkvæmum íbúðum og félagslegu húsnæði. 

Stefnt er að því að byggðar verði rúmlega 50 íbúðir á fimm árum og þar af verði 19 þeirra byggðar án hagnaðarsjónarmiða fyrir fólk undir tilteknum tekju- og eignamörkum, íbúðir sem falla undir skilyrði hlutdeildarlána. Árleg uppbygging verður nokkuð jöfn en stefnt er að því að byggja 8-12 íbúðir á ári.

Samkomulagið er gert á grunni rammasamnings ríkis og sveitarfélaga um aðgerðir í húsnæðismálum, sem gerður var sumarið 2022. Í rammasamningnum voru sett markmið um að byggja 35 þúsund íbúðir á landsvísu á tíu árum til að mæta þörfum ólíkra hópa samfélagsins um land allt, þ.á m. með sérstökum aðgerðum fólk undir tilteknum tekju- og eignamörkum. Í rammasamningnum var kveðið á um að gera samninga við einstök sveitarfélög með aðkomu HMS um að auka framboð íbúðarhúsnæðis.

Húnaþing vestra er þriðja sveitarfélagið sem gerir slíkan samning en í fyrra var samið við Reykjavíkurborg og Mýrdalshrepp.

DEILA