Hagstofan: fækkar landsmönnum um 17 þúsund

Hagstofan birtir í dag nýjar tölur um mannfjöldi á Íslandi og segir hann vera 383.726 þann 1. janúar 2024. Það eru nokkuð aðrar tölur en finna má á vef Þjóðskrár. Þar kemur fram að mannsfjöldinn sé í dag 400.905. Þarna munar liðlega 17 þúsund manns tölum tveggja ríkisstofnana.

Það er einkum munur á fjölda útlendinga. Þjóðskrá segir þá vera 76.335 en Hagstofan segir að þann 1. janúar sl. hafi útlendingar verið 63.528. Munurinn er nærri 13 þúsund manns.

Íslenskir ríkisborgarar eru taldir vera 320.198 í tölum Hagstofunnar en 324.570 hjá Þjóðskrá Íslands. Munurinn er liðlega 4.000 manns.

Hagstofa Íslands hefur endurbætt aðferð sína við útreikninga á mannfjölda. Hingað til hefur íbúafjöldi eingöngu byggt á skráningu lögheimilis í þjóðskrá. Ný aðferð byggir á breiðari grunni opinberra gagna; skattagögnum og nemendagögnum auk þjóðskrár segir í frétt Hagstofunnar. Niðurstaðan er sú að 1. janúar 2024 hafi íbúar verið um 15.245 færri en eldri aðferð gaf til kynna.

Pólverjar þriðjungur útlendinga

Eins og síðustu ár voru Pólverjar langfjölmennasti hópur erlendra ríkisborgara hér á landi þann 1. janúar 2024 samkvæmt þessum nýju tölum Hagstofunnar. Alls voru 22.693 einstaklingar með pólskt ríkisfang eða 35,7% allra erlendra ríkisborgara. Pólskir karlar voru 36,7% allra karla með erlendra ríkisborgarétt þann 1. janúar 2024, eða 13.187 af 35.929. Pólskar konur voru 34,5% af erlendum kvenkyns ríkisborgurum. Næstfjölmennasti hópur erlendra ríkisborgara var frá Litháen, 7,2% en 5,6% erlendra ríkisborgara koma frá Úkraínu.

Hlutfall útlendinga er langhæst á Suðurnesjum 26,8%. Næst koma Vestfirðir með 20,1%, Suurland 17,1% og höfuðborgarsvæðið 16,2%

Uppfært kl 14:58. Bætt var við málsgrein sem skýrir breytinguna hjá Hagstofunni.

DEILA