Geirþjófsfjörð á að friða gagnvart jarðraski

Úr grein BB 25. mars: 

Geirþjófsfjörður: heilsusetur skipulagt á Krosseyri

„Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands segir að deiliskipulagið boði mikla uppbyggingu á Krosseyri sem muni raska gróðri, ásamt því að hafa varanleg áhrif á ásýnd svæðisins og landslag þar sem eyrin er vel sýnileg frá mörgum stöðum við Suðurfirði. Náttúrufræðistofnun gerir ekki frekari athugasemdir við tillögu að deiliskipulagi fyrir Krosseyri en áskilur sér rétt til að koma að frekari athugasemdum á síðari stigum málsins gerist þörf á því.”

Ritari þesarar greinar á ekki orð yfir tvískinnungi bæjarstjórnar Vesturbyggðar í umhverfis- og landverndarmálum. Það virðist alls ekki vera sama hvar standa skal upp til varnar lítt eða ósnortnu landi, einkahagsmunir studdir en almannahagsmunir hunsaðir. Geirþjófsfjörð á að friða gagnvart jarðraski. Það mætti heimila þar aðeins minni háttar mannvirki sem falla smekklega að umhverfinu en ekki í því umfangi sem virðist eiga stefna að á Krosseyri og stefnir í að bera svæðið ofurliði samanber framangreinda umsögn. Það blasir við að varla nokkur í viðkomandi nefndum, ráðum og bæjarstjórn hafi komið á Krosseyri, aðeins litið á landið tilfinningalaust af kortum. Vatnsfjörður telst að mati bæjarstjórnar heilagur gagnvart virkjunaráformum í almanna þágu en heimilað er án nokkurrar hugsunar umrót og umbylting á örlitlum grónum bletti á Krosseyri í Geirþjófsfirði í þágu einkahagsmuna. Hví geyja ekki varðhundar ósnortinnar náttúru að þessu sinni og láta skína í vígtennurnar, landvörður svæðisins og aðrir umhverfisvænir? Og þá aðrir þeir sem mæla fyrir þjóðgarði frá Borgarfirði suður í Hörgsnes á Barðaströnd? Það eru engir fossar eða frískir bunulækir í landi Krosseyrar, aðeins vel gróin brekka upp frá eyrinni. Það virðist vera lítilræði sem ekki þarf að vernda í hugum stjórnenda Vesurbyggðar.

Vonandi verður viðtakandi bæjarstjórn sameinaðs sveitarfélags Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar næmari  og skilningsríkari á alla fleti samfélags og umhverfis en sú sem er að kveðja. Hún hefur því miður fallið á náttúruverndarprófinu.

Úlfar B Thoroddsen íbúi í Vesturbyggð sem er bæði annt um Geirþjófsfjörð og Vatnsdal á Barðaströnd.

DEILA