Framsókn: vill að sveitarstjórnir greiði fyrir kjarasamningum

Frá Fjórðungsþingi Vestfirðinga á Ísafirði 2021. Skorað er á sveitarstjórnarfólk. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Sveitarstjórnarráð Framsóknarflokksins hefur sent frá sér tilkynningu um ályktun sem var samþykkt samhljóða á fundi sveitarstjórnarráðs Framsóknar í gærkvöldi. Þar eru sveitarstjórnir hvattar til þess að greiða fyrir gerð kjarasamninga á vinnumarkaði og tryggja gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum.

„Sveitarstjórnarráð Framsóknar hvetur sveitarstjórnarfólk um land allt til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á vinnumarkaði, sem hafa það að markmiði að ná niður verðbólgu og vöxtum í landinu. Lækkun vaxta eykur kaupmátt allra heimila. Sveitarstjórnarráð Framsóknar styður að ríki og sveitarfélög tryggi gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum eins og ríkisstjórn hefur samþykkt enda setur Framsókn barnafjölskyldur í forgang. Jafnframt styður ráðið að dregið verði úr gjaldskrárhækkunum sem snúa að barnafjölskyldum.“

Bæði fjármálaráðherra og formaður Starfsgreinasambandsins hafa sagt að samkomulag milli Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambandsins sé í nánd og að aðgerðapakki stjórnvalda sé stór þáttur í því að ljúka samningagerð með kjarasamningi til fjögurra ára.

DEILA