Vísindarannsóknir draga úr óvissu og efla farsæld

Háskólarektor við útskriftina í gær. Mynd: H.Í./Kristinn Ingvarsson

„Vísindarannsóknir hafa gert okkur kleift að draga úr margvíslegri óvissu og læra að lifa með henni,“ sagði Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands í ávarpi sínu í gær þegar 423 brautkráðust frá skólanum í Háskólabíói. Hann vék ítrekað að mikilvægi þekkingarleitarinnar í erindi sínu enda er Háskóli Íslands rannsóknaháskóli sem starfar í alþjóðlegu umhverfi þar sem grunnrannsóknir hafa veruleg áhrif á velferð samfélagsins. Í því sambandi nefndi Jón Atli sérstaklega rannsóknir á umbrotahrinunni sem staðið hefur með hléum á Reykjanesi frá því í marsmánuði árið 2021. Þar hefur jarðvísindafólk þjóðarinnar verið vakið og sofið við að rannsaka jarðskorpuhreyfingar og upplýsa stjórnvöld og almenning um þær áskoranir sem hugsanlegar eru hverju sinni.

Háskóli Íslands rekur rannsóknarsetur í Bolungavík þar sem eru stundaðar grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir á lífríki sjávar og strandsvæða og nýtingu sjávarafurða. Þar eru tveir starfsmenn og fjórir doktorsnemendur. Forstöðumaður er dr. Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir.

Tilhögun fjármögnunar háskólastarfs hefur verið mjög í umræðunni að undanförnu og sagði Jón Atli í ræðunni það afar brýnt að skapa háskólum fjárhagslegt sjálfstæði og trausta lagalega umgjörð til að þeir geti áfram leikið lykilhlutverk í að tryggja farsæld. „Miklu skiptir að stefna stjórnvalda um háskólastigið, vegvísir okkar til farsællar framtíðar, sé mótuð til langs tíma í sátt við hagaðila. Grundvallarbreytingar á tilhögun háskólanáms hérlendis verða að vera vel kynntar og ræddar ítarlega áður en þeim er hrint í framkvæmd,“ sagði háskólarektor enn fremur úr ræðu sinni.

DEILA