Viðtalið: Linda Björk Gunnlaugsdóttir

Linda Björk Gunnlaugsdóttir.

Nýlega hóf Linda Björk Gunnlaugsdóttir störf sem framkvæmdastjóri sölusviðs hjá Arnarlax. Hún hafði áður starfað erlendis í flutningsgeiranum og er í frístundum sínum hestamanneskja. Bæjarins besta lagði fyrir Lindu nokkrar spurningar.

Seljum 18.000 tonn af laxi

Ég hóf störf hjá Arnarlaxi í byrjun janúar sem framkvæmdastjóri sölusviðs.  Sölusviðið sér um sölu á laxinum sem við framleiðum og annast einnig allan flutning.  Eðlilega eru mikil umsvif í deildinni en samtals erum við 7 manns sem sinna þessum verkefnum.  Við seldum og fluttum við um 18.000 tonn af laxi árið 2023. Magnið verður aðeins minna í ár en svo er stefnan að magnið aukist á komandi árum.

Viðskiptavinir Arnarlax eru út um allan heim og því mikill undirbúning sem felst í hverri sölu í gegnum allt fyrirtækið frá því að laxinn er sóttur í kví, fer í gegnum vinnsluna, pakkað og settur í viðeigendi flutninga einingu og komið á endastöð ferskur og flottur. 

Við seljum lax t.d. til  USA, Asíu, um alla Evrópu og er hann fluttur annað hvort með skipum eða flugi. 

Lax er ein vinsælasta fiskitegund í heimi og markaðurinn fer ört stækkandi.  Það er því mjög gaman að fá tækifæri til að taka þátt í því að vinna í fyrirtæki sem er í framleiðslu á góðu og hollu próteini.   Metnaðurinn, agi og fagleg vinnubrögð eru rauði þráðurinn í gegnum allt fyrirtækið enda brennum við fyrir því að framleiða flotta og góða vöru í sátt og samlyndi við umhverfið.

Viðskiptavinir Arnarlax eru eins og áður sagði út um allan heim og við finnum fyrir mikilli eftirspurn eftir okkar laxi vegna gæða og stefnu fyrirtækisins. 

Við notum allar helstu flutningaleiðir frá landinu bæði á sjó og flugi.  Höfum t.d. notað skipaflutninga til austurstrandar USA, fljúgum fiski til Kína og vesturstrandar USA og svo skip að mestu til Evrópu, Skandinaviu og Bretlands.

Starfaði í Hollandi og Færeyjum

Minn bakgrunnur er fjölbreyttur þar sem ég hef verið stjórnandi í nokkrum atvinnugeirum á Íslandi t.d flutningum, olíu og heildsölu.  Ég starfaði erlendis fyrir Eimskip í nokkur ár og fékk þá tækfæri á að búa í Hollandi og svo í Færeyjum þar sem ég var framkvæmdastjóri Eimskip í Færeyjum.  Flest árin hafa verið í flutningageiranum og  m.a. kom ég að opnun Smyril Line á Íslandi og tók þátt í ævintýrinu að hefja siglingar á Þorlákshöfn sem nú blómstar og dafnar.  

Hef einnig fengið tækifæri til að vera í nokkrum stjórnum og m.a. hef ég verið í stjórn SFS sem var mjög áhugavert. 

Mestum tíma fyrir utan allra gæðastundanna með fjölskyldunni minni og barnabörnunum fimm eyði ég svo í hestana mína.  Er auðvitað á kafi í að smita barnabörnin af hestabakteríunni og gengur það nú bara mjög vel.

DEILA