Vestfirðir: 61% fæðinga utan svæðis

Á síðasta ári sótti 41 kona mæðraskoðun á starfssvæði Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, sem er frá Vesturbyggð að Súðavíkurhreppi. Aðeins 16 þeirra eignuðust barn sitt á stofnuninni en 25 fæddu annars staðar. Síðustu 10 ár hafa tölurnar yfir meðgöngur verið frá 44 upp í 56 á ári og fæðingar verið frá 29 til 40 að undanskildum tveimur síðustu árum þegar þær eru verulega lægri.

Hildur Elísabet Pétursdóttir, settur forstjóri HVest segir að svo virðist vera að það hafi ekki bara veri’ færri fæðingar á Vestfjörðumheldur hafi verið dýfa á landsvísu.

Línurit um meðgöngur og fæðingar á Vestfjörðum síðustu 10 ár. Heimild: Hvest.

Hildur segir að fimm konur hafi þurft að fæða annars staðar vegna skurðstofulokunar og voru fjórar af þeim meðan framkvæmdir á skurðstofu stóðu yfir síðastliðið vor. Ein kona fæddi á meðan skurðstofa lokaði yfir áramótin.

„Við höfum ekki þurft að loka vegna skorts á skurðlæknum nema yfir áramótin síðustu og vonum að það komi ekki til þess heldur á þessu ári.“ segir Hildur.

Nú eru starfandi fjórar ljósmæður við stofnunina ásamt afleysingu þegar þarf. Einungis eru fæðingar á Ísafirði.

Hildur Elísabet tók saman ástæður þess að konur fæddu annars staðar í fyrra og algengasta skýringin voru áhættuþættir sem áttu við í 14 tilvikum. Þrjár konur óskuðu eftir því að fæða annar staðar og í jafnmörgum tilvikum er ástæðan ekki þekkt. Skurðstofulokun skýrir fimm tilvik eins og áður er komið fram.

„Ekki hefur hefð fyrir því að konur af suðurfjörðunum komi til Ísafjarðar til að fæða en með batnandi samgöngum þá vonum við að það breytist.“ sagði Hildur. Í fyrra voru 11 konur í mæðravernd á sunnanverðum Vestfjörðum.

Þess má geta að næsta fræðsluerindi fyrir verðandi mæður, feður eða stuðningsaðila er 19. febrúar kl. 16:30.

Uppfært kl 11:41. Leiðrétting barst frá Hvest um fjölda kvenna sem óskuðu að fæða annars staðar. Þær voru þrjár en ekki 12 eins og áður sagði í fréttinni. Hefur grafið að ofan verið leiðrétt til samræmis og viðeiigandi texti.

DEILA