Verknámshús M.Í: Ísafjarðarbær fagnar áformunum

Menntaskólinn á Ísafirði.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar tók fyrir á fundi sínum á fimmtudaginn byggingu verknámshúss við Menntaskólann á Ísafirði. Fyrir liggja drög að samningi milli sveitarfélaganna á Vestfjörðum og ríkisins en kostnaðarskiptingin er þannig að ríkið greiðir 60% og sveitarfélögin 40%.

Bæjarstjórnin samþykkti tillögu bæjarstjóra um að bæjarstjórn samþykki að taka þátt í verkefni um byggingu nýs verknámshúss við Menntaskólann á Ísafirði.

Jafnframt var bókað:

„Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar fagnar áformum um byggingu verknámshús við Menntaskólann á Ísafirði. Það er mikilvægur þáttur í að efla alla Vestfirði og gera ungu fólki kleift að sækja iðnmenntun stutt frá heimahögunum. Í ljósi þess að við sjáum fram á mikla uppbyggingu á svæðinu er þetta þýðingarmikið fyrir framtíð Vestfjarða.“

Samningur og frekari gögn um fjármögnun og hlut Ísafjarðarbæjar verður lagður fram til samþykkis á síðari stigum.

DEILA