Verknámshús M.Í. : ekki hagsmunir Vesturbyggðar

Patreksfjörður. MyndÞ Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarráð Vesturbyggðar ræddi í gær erindi um þátttöku sveitarfélagsins í nýbyggingu verknámshúss við Menntaskólann á Ísafirði. Bæjarráðið sá sér ekki fært að taka þátt í verkefninu eins og það er sett upp.

Bókað var til skýringar á afstöðu bæjarráðsins að það telur að hagsmunir íbúa Vesturbyggðar af þátttöku í byggingu verknámshús þurfi að vera skýrir svo að bæjarráð geti rökstutt þátttöku í verkefninu. Huga þurfi að aðgengi nemenda á öllum Vestfjörðum og hvernig skuli að því staðið.

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps lagði sama erindi fram á fundi sínum en ekkert var bókað um afstöðu til þess. Lilja Magnúsdóttir, oddviti hefur ekki svarað fyrirspurn Bæjarins besta um það hvort sveitarfélagið hyggist vera aðili að samningi við ríkið um byggingu verknámshúsið.

Þrjú sveitarfélög hafa samþykkt að standa að verkefninu, Ísafjarðarbær, Bolungavíkurkaupstaður og Súðavíkurhreppur.

Tvö sveitarfélög hafa hafnað því, Vesturbyggð og Kaldrananeshreppur og fjögur sveitarfélög hafa ekki gefið upp afstöðu sína. Það eru Reykhólahreppur, Strandabyggð, Árneshreppur og Tálknafjarðarhreppur.

Ef aðeins þessi þrjú sveitarfélög standa að verknámshúsinu með ríkinu, sem greiðir 60%, munu þau skipta 40% hlut sveitarfélaganna milli sín í hlutfalli við íbúafjölda.

DEILA