Verknámshús M.Í. : Bolungavíkurkaupstaður fagnar áformum um nýtt hús

Menntaskólinn á Ísafirði.

Bæjarráð Bolungavíkur ræddi í gær erindi frá Vestfjarðastofu með drögum að samningi og minnisblaði um byggingu verknámshús við MÍ. Bæjarráðið bókaði að það fagnar áformum um byggingu verknámshús við Menntaskólann á Ísafirði.

„Það er mikilvægur þáttur í að efla alla Vestfirði og gera ungu fólki kleift að sækja iðnmenntun stutt frá heimahögunum. Í ljósi þess að við sjáum fram á mikla uppbyggingu á svæðinu er þetta þýðingarmikið fyrir framtíð Vestfjarða.“

Samningur og frekari gögn um fjármögnun og hlut Bolungarvíkurkaupstaðar verður lagður fram til samþykkis á síðari stigum.

Jafnframt var bæjarstjóra falið að kanna hug annarra sveitarfélaga um að senda inn sameiginlega umsókn um styrk úr Fiskeldissjóði vegna þessa verkefnis.

Áætlaður heildarkostnaður framkvæmdarinnar án stofnbúnaðar er á bilinu 476,8 – 715,3 milljónir króna samkvæmt forathugun Framkvæmdasýslu ríkisins miðað við verðlag í október 2023.

Hlutur sveitarfélaganna verður samkvæmt þessu á bilinu 191 – 286 m.kr. Þá er gert ráð fyrir að sveitarfélagið þar sem skólinn er leggi til gjaldfrjálsa lóð.

Hlutur Bolungavíkurkaupstaðar er á bilinu 26 – 39 m.kr. miðað við að öll sveitarfélögin á Vestfjörðum taki þátt í byggingunni, en verður hærri ef færri sveitarfélög standa að henni.

DEILA