Vatnsdalsvirkjun: umsögn Ísafjarðarbæjar hefur ekki borist

Vatnsdalur. Mynd: Úlfar Thoroddsen.

Samkvæmt upplýsingum upplýsingafulltrúa Umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytisins í gær hefur umsögn Ísafjarðarbæjar um Vatnsdalsvirkjun ekki borist ráðuneytinu.

Umsögn bæjarráðs Ísafjarðarbæjar er frá 29. janúar 2024 og þar er því beint til „ráðherra að breyta friðlýsingarskilmálum Vatnsfjarðar að því marki sem þörf er á til þess að áfram verði hægt að vinna að rannsóknum og heildstæðri pólitískri umræðu um bætt raforkukerfi á Vestfjörðum og landinu öllu, uppbyggingu þjóðgarðs á svæðinu og stuðla þannig að umhverfisvernd og bættum þjóðarhag.“

Orkubú Vestfjarða fór þess á leit við ráðuneytið 22. febrúar 2023 að friðunarskilmálum Vatnsdals yrði breytt svo unnt yrði að láta kanna 20 – 30 MW virkjun í Vatnsdal.

Ráðuneytið óskaði eftir umsögnum frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Umhverfistofnun, Minjastofnun Íslands, Hafrannsóknastofnun og Vesturbyggð. Þá var umsagnarbeiðni send til tengiliða ráðuneytisins við hóp náttúru- og umhverfisverndarsamtaka í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ráðuneytisins við náttúru- og umhverfisverndarsamtök, segir í svari ráðuneytisins.

Alls bárust 12 umsagnir auk umsagnar Vesturbyggðar. Voru þær frá ofangreindum fjórum stofnunum, Elvu Björg Einarsdóttur, Seftjörn, Flugu og net ehf á Barðaströnd, Fuglavernd, hið íslenska náttúruverndarfélag, Landvernd, landvarðafélagi Íslands, samtökunum Ófeig og ungum umhverfissinnum.

Hafrannsóknarstofnun telur áformin vera neikvæð og verndargildi svæðisins muni rýrna mikið. Minjastofnun telur sig ekki geta gefið umsögn þar sem fullnæjandi fornleifaskráning svæðisins liggi ekki fyrir. Náttúrufræðistofnun telur ekki við hæfi að litið sé til virkjunarkosta innan friðlands Vatnsfjarðar með tilheyrandi breytingum á reglum þess. Umhverfisstofnun leggst gegn breytingum á friðunarskilmálunum. Í öllum umsögnum umhverfis- og félagasamtakanna er lagst gegn áformunum. Vesturbyggð lagðist einnig gegn málinu og vísaði á aðra virkjunarkosti og endurnýjun byggðalínu.

Uppfært kl 11:45. Staðfesting hefur borist á því að umsögn Ísafjarðarbæjar var send í morgun.

DEILA