Upplýsingar um byggðakvóta ekki á lausu

Páll Pálsson ÍS fékk byggðakvóta á síðasta fiskveiðiári. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Ekki hafa enn fengist upplýsingar frá Matvælaráðuneyti eftir 55 daga bið um byggðakvóta yfirstandandi fiskveiðiárs sundurliðaður á einstök byggðarlög. Óskað var eftir yfirlitinu þann 12. desember 2023 og fengust þá þau svör að reiknað væri með því að birta yfirlitið á næstu dögum á vefsíðu ráðuneytisins.

Rúmum þremur vikum síðar eða þann 5. janúar 2024 var erindið ítrekað og bárust þá þessi svör:

„Það er verið að vinna í því að birta tillögur að sérreglum vegna byggðakvóta. Geri ráð fyrir því að yfirlit um úthlutun til byggðarlaga verði birt samhliða. Þetta ætti að vera komið strax eftir helgi.“

Fyrir viku var enn óskað eftir þessu yfirliti, en það hefur ekki enn verið upplýst né hvers vegna svör hafa ekki verið veitt. Ekki hafa verið veitt svör við því hvers vegna úthlutunarreglur hvers sveitarfélags þurfa að liggja fyrir áður en upplýst er hve mikill byggðakvóti kemur í hlut hvers sveitarfélags.

Ráðuneytið sendi í byrjun desember bréf um úthutun á byggðakvóta til hvers sveitarfélags sundurliðað eftir byggðalögum. Vitað er að til Vesturbyggðar er ráðstafað 102 tonnum af byggðakvóta til þriggja byggðarlaga innan sveitarfélagsins og til Ísafjarðarbæjar fara 1.082 tonn vegna fjögurra byggðarlaga.

DEILA