Patreksfjörður: slysavarnardeildin Unnur 90 ára í dag

Forsíðan á afmælisirtinu.

Í dag eru rétt 90 ár síðan 122 konur stofnuðu slysavarnadeildina Unni á Patreksfirði. Konur úr verkalýðsfélaginu höfðu forgöngu um stofnun félagsins og söfnuðu undirskriftum. Fyrsti formaður var kjörin Elín Bjarnadóttir. Núverandi formaður Sólrún Ólafsdóttir rifjar þessa sögu upp í 48 blaðsíðna afmælisriti sem komið er út í tilefni afmælisins. Rifjar hún upp að frá upphafi hefur það verið leiðarljósið að efla slysavarnir og öryggi heima fyrir. Sjóslys voru tíð á þessum tíma og vann slysavarnadeildin hörðum höndum að því að bæta öryggi sjófarenda. Fyrir utan öflugt slysavarnastarf hefur deildin unnið að margs konar fjáröflun til þess að fjármagna kaup á ýmsum björgunarbúnaði og hefur deildin staðið þétt við Björgunarsveitina Blakk í þeim efnum.

Fram kemur hjá Sólrúnu að í dag er 81 kona í Slysavarnadeildinni Unni. „Starf okkar er fjölbreytt og gefandi og allar konur eru velkomnar í þennan skemmtilega, nærandi og góða félagsskap.“ Félagskonur hafa í gegnum tíðina beitt sér fyrir margvíslegum framfaramálum. Eitt þeirra var frá árinu 1941, en þá samþykkti Slysavarnadeildin Unnur að beita sér fyrir sundlaugarbyggingu á Patreksfirði. Deildið aflaði fjár fyrir byggingunni og hún var vígð 1946. Einnig beitti Slysavarnadeildin Unnur sér líka fyrir því að setja upp talstöð við Hvallátra við Patreksfjörð.

Í afmælisritinu er m.a. ágrip af störfum allra 22 formanna félagsins frá stofnun þess og rifjað upp í máli og myndum ýmislegt í starfi félagsins. Er afmælisritið hið veglegasta og gefið út á prenti í 800 eintökum auk þess að vera á rafrænu formi.

Opið hús á laugardaginn

Í tilefni af afmælinu stendur deildin fyrir afmælishófi á laugardaginn í Félagsheimilinu á Patreksfirði þar sem verður fjölbreytt dagskrá.

DEILA