Nýr kjarasamningur sjómanna

Samningarnir handsalaðir. Heiðrún Lind Marteinsdóttir og Valmundur Valmundsson.

Í gær var undirritaður nýr kjarasamningur milli Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Samningurinn er byggður kjarasamningi milli aðila sem sjómenn felldu í fyrra en á honum hafa verið gerðar nokkrar breytingar.

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga segir að samningurinn gildi fyrir félagsmenn Verkvest og einnig Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungavíkur.

Samningurinn er til 10 ára eins og samningurinn í fyrra en með þeirri breytingu að hægt verður að segja honum upp eftir 5 ár. Ef það verður ekki gert verður næst hægt að segja samningnum upp eftir 7 ár með 6 mánaða fyrirvara.

Verði kjarasamningurinn nú samþykktur fá félagsmenn 400 þúsund króna eingreiðslu.

Samið er um að framlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð hækki úr 12% í 15,5% gegn lækkun um 0,8% af skiptaverðinu eða sem samsvarar 1,14% af aflahlut.

Finnbogi segir þetta sambærilegt við það sem landverkafólk samdi um þegar samið var um hækkun lífeyrisframlags en þá var samið um lægri launahækkun á móti því.

Ekki er skylda sjómanna að taka hækkun lífeyrisframlagsins og gefa lækkun á skiptaverði heldur verður einnig mögulegt að velja áfram óbreytt lífeyrisframlag en fá þá kaupauka 0,5 % hækkun á skiptaverðinu eða 0,7% hækkun á aflahlut. Mótframlaginu frá atvinnurekanda, 3,5% af launum, getur launafólk ráðstafað í tilgreinda séreign, sé vilji fyrir því.

Loks verður áfram samkomulag um að samningaðilar geti gert sérstakan samning um mannafjölda og skiptaprósentu þegar breytingar verða á veiði- eða verkunaraðferðum eða ný skip eða verkunaraðferðir komi fram en þó er sú breyting gerð á samningnum sem felldur var í fyrra að í stað þess að ágreiningur verði leystur með gerðardómi skipi samningaðilar hlutlausa nefnd sem hafi þetta hlutverk.

Samningarnir verða kynntir ítarlega fyrir félagsmönnum og að því loknu hefst rafræn atkvæðagreiðsla 12. febrúar kl. 12:00 og lýkur henni föstudaginn 16. febrúar kl. 15:00.

DEILA