Nú get ég

Halldór Jónsson.

Í litlu landi og strjálbýlu er ekki sjálfgefið að á hverju byggðu bóli njóti hver og einn alls hins besta er lífið hefur uppá að bjóða hverju sinni.

Samtakamátturinn verður því helsta, stundum eina og þar með síðasta vopn þeirra er búa fjarri fjölmenninu. Á slíkum slóðum eru það því stundum félagsmálatröllin sem snúa þróuninni við og um leið sögunni. Ástríða slíkra trölla verður á endanum áhugamál og gleðiefni fjöldans,  sem hrífst með. Nýtur afrakstursins.

Hefði almenningur sótt skíðandi til fjalla á vetrardögum ? Væri tónlistin blómstrandi í hverju húsi? Væru páskar skemmtilegt stefnumót að degi og nóttu? Væri sumarparadís umvafin trjágróðri til staðar með golfvöll innan seilingar? Firðir brúaðir? Fjöll boruð í gegn? Róið til fiskjar?

Þegar árangurinn kemur í ljós hrífst fjöldinn einatt með, eins og áður sagði. Ekki bara í næsta nágrenni heldur um víðan völl. Guðmundur Ingi Kristjánsson skáld frá Kirkjubóli lýsti þessu manna besta í kvæði sínu af öðru tilefni:

„Nú gleðjumst vér öll þeirri gleði

sem geislar um Ísafjörð.“

Þrátt fyrir oft á tíðum daprar aðstæður fjarri fjölmenninu næst stundum framúrskarandi árangur. Þá er mikilvægt að samfélagið í gleði sinni hugsi til framtíðar og reyni af fremsta megni að haga málum þannig undirstöður verði treystar og aðstæður skapaðar til áframhaldandi velgengni.

Hvert samfélag hefur sína veikleika. Það skiptir öllu að brugðist verði við þeim. Annars fer illa. Öfundin og  baknagið eru alþekkt veikleikamerki. Oftar en ekki undirliggjandi hjá því fólki sem lítið hefur jafnan til málanna að leggja og leggur aldrei hönd á plóg. Sporgöngufólkið.  Stígur svo fram í dagsljósið að góðu verki annarra loknu og segir: Nú get ég. Hefur ráð undir rifi hverju. Finnur félagsmálatröllunum allt til foráttu og dregur uppúr farteskinu hvaðeina sem kastað getur rýrð á störf þeirra og árangur.

Engum framúrskarandi félagsmálamanni hef ég kynnst sem er eins og fólk er flest. Þar eru nefnilega einhverjir undirliggjandi hæfileikar sem leiða fólk saman og skapa árangur. Ekkert okkar er gallalaust og því síður verkin okkar. Því er svo áríðandi að horfa á björtu hliðarnar og góðu verkin. Þá farnast samfélögum best.

Áfram Vestri.

Halldór Jónsson

 Höfundur er áhugamaður um knattspyrnu.

DEILA